152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[21:25]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það skiptir alltaf máli hver stjórnar. Það er kannski ánægjulegt að þessi mál eru að flytjast meira og meira úr dómsmálaráðuneytinu yfir í félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Ég tel að það sé af hinu góða og ég tel líka að það að skipa flóttamannanefnd, það hvernig verið er t.d. að tækla málið núna með þennan stóra hóp flóttamanna eða hælisleitenda frá Úkraínu — þar er bæði stjórnkerfið, félagasamtök, einstaklingar, fyrirtæki og samfélagið allt að vinna saman að þessu. Þegar við höfum mannúðina að leiðarljósi getum við gert ótrúlega hluti, hreint og klárt ótrúlega hluti. Það er það sem ég sakna í sumri löggjöf sem við höfum á þessu sviði en svo sannarlega ekki í þessari löggjöf. Hún er af hinu góða. Hún er skrifuð með mannúð að leiðarljósi og styð ég hana þess vegna, en eins og ég hef látið heyra í mér hátt og vel: Það eru önnur lög og aðrar stefnur sem við erum með á þessu sviði þar sem við þurfum að láta mannúðina stjórna.