152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[21:27]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir ræðuna. Þingmaðurinn er vel lesinn í þessum efnum þó að við séum ekki alltaf sammála um allt. Ég verð að gera ágreining við hv. þingmann um að það sé vart marktækur mælikvarði í þessu samhengi að miða við hlutfallstölur þegar við berum okkur saman við aðrar þjóðir. Ég sé hreinlega ekki að annar mælikvarði sé tækur. Ef við ætluðum t.d. að bera okkur saman við Bandaríkin, bara svo dæmi sé tekið, af því að þar er stuðullinn einn á móti 1.000, svona tiltölulega þægilegt að reikna í huganum þó að hann sé lægri gagnvart flestum þjóðum í heiminum, þá verðum við að hafa einhvern grundvöll til að bera saman tölur á.

Hv. þingmaður kom inn á, ef ég greip rétt, að það væru 1,3 milljónir umsókna í OECD-ríkjunum í heild, var það ekki? Af hraðleit á netinu sýnist mér tæplega 1,4 milljarðar búa í OECD-löndunum, þannig að umsóknir hér á Íslandi eru vel yfir 100% umfram meðaltal OECD-ríkjanna. Ef við horfum bara yfir heildarsviðið, ekki bara nágrannaþjóðirnar, þar sem hlutfallið er enn skarpara gagnvart Dönum og Norðmönnum sérstaklega — ég vil spyrja hv. þingmann hvort, í því starfi sem hann hafi sinnt erlendis, höfðatöluviðmiðið sé ekki notað í þeim samanburði og þeirri greiningu á tölum sem við er að eiga hverju sinni.