152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[21:31]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og hef vissulega skilning á að þetta snertir hjarta þeirra sem verða vitni að þessu og við verðum auðvitað öll vitni að þessu í gegnum fréttir þó að við séum ekki öll í færum til að skoða þetta með eigin augum. En ég held að ég verði að segja að þarna er þingmaðurinn á svolitlum villigötum að mínu mati því að auðvitað eru þetta allt einstaklingar, hvort sem um börn eða fullorðna er að ræða. Og af því að hv. þingmaður byrjaði að vísa í samanburðinn er tengist ungbarnadauða, sem er nú sem betur fer með því lægsta ef ekki það lægsta sem þekkist í heiminum hér á Íslandi, þá er það auðvitað mælt sem hlutfall og er þó sennilega það viðkvæmasta af öllu fyrir hverja fjölskyldu ef ungt barn fellur frá.

Það er kannski ekki spurning í þessu hjá mér en ég held að við þurfum að hafa grundvöll til að standa á því að auðvitað er þetta allt — við erum að fjalla um takmarkaða auðlind (Forseti hringir.) sem eru þeir fjármunir og geta og úrræði sem íslensk stjórnvöld hafa úr að spila. Til að ná sem mestu út úr því sem við verjum til þessa málaflokks þá þurfum við sennilega, (Forseti hringir.) þó að það sé súrt og sárt að setja okkur í þá stöðu, að tala að einhverju marki út frá hlutföllum og tölfræði.