152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[21:49]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að leiðrétta hv. þingmann. Ég sagði ekki að fjöldi fólks sem deyr í stríði hefði aukist. Það hefur þvert á móti farið niður á við. En fjöldi fólks sem þarf mannúðaraðstoð og fólks sem flýr átök hefur aldrei verið meiri. Fjöldi átaka í heiminum hefur heldur aldrei verið meiri en núna. En ég get verið sammála hv. þingmanni um eitt, ótrúlegt en satt, við erum stundum sammála um eitthvað, og það er að rík lönd eiga að sjálfsögðu að taka á móti fleirum. Hvort sem það eru rík lönd eins og Bandaríkin eða Dúbaí þá eiga þau lönd að sjálfsögðu að taka á móti fleiri flóttamönnum. Við getum ekki alltaf ætlast til þess að það séu bara nágrannalöndin sem sitji uppi með milljónir manna, kannski vegna stríðs sem við eigum þátt í að orsaka sem hluti af hernaðarbandalagi. Við erum með gott dæmi akkúrat núna. Fólk er að flýja Úkraínu, það eru tæpar fimm milljónir komnar í öll nágrannalöndin. Sum þeirra geta tekið á móti fólki, önnur, eins og t.d. Moldóva sem hefur fengið tæplega 500.000 flóttamenn frá Úkraínu, hafa hreinlega ekki fjármagn til að taka á móti öllu því fólki. Það var því ánægjulegt að sjá að ákveðið hefur verið að létta á þeim og sækja þangað flóttafólk hingað til Íslands.