152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[21:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Síðustu spurningunni er auðsvarað: Nei, hv. þingmaður heyrði ekki rétt. Ég tel ekki að við eigum að taka okkur Sádi-Arabíu og löndin við Persaflóa til fyrirmyndar í þessu efni, ég tel frekar að þau eigi að líta til þess sem við og önnur vestræn lönd erum að gera í því að reyna að aðstoða flóttamenn. Svo benti hv. þingmaður á að einungis væri um að ræða fólk sem hefur fengið viðurkennda stöðu flóttamanns hvað varðar þessa samræmdu þjónustu. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því. En það er einmitt þetta sem hefur svo mikið verið rætt, ekki hvað síst í dönskum stjórnmálum, að ekki sé æskilegt að það skipti ekki máli með hvaða hætti fólk kemur til landsins. Ég vitnaði í forsætisráðherra Danmerkur hér áðan sem sagði að markmiðið væri að enginn mætti til Danmerkur til að sækja þar um hæli. Svo var spurt hvort við værum að gera íslensku samfélagi gagn með því að skerða þjónustu við flóttafólk. Að mínu mati erum við fyrst og fremst að gera því fólki gagn sem er í mestri neyð með því að forgangsraða með þessum hætti, þ.e. að þeir sem eiga síður rétt á því eða síður kröfu á því geti ekki stokkið fram fyrir þá sem eru í mestri neyð. Ég held að það sé aðalatriðið að við tryggjum að kerfið sé til þess fallið að beina fólki í sem öruggustu og bestu leiðina sem um leið veitir forgang því fólki sem er í hvað viðkvæmastri stöðu og þarf mest á hjálp að halda.