152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[22:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Það að 73% flóttamanna séu í nágrannaríkjum er lægri tala en ég hafði átt von á því að eðli máls samkvæmt þá er fyrsti viðkomustaður í langflestum tilvikum nágrannaríki. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á hvað varðar til að mynda stríðið í Sýrlandi þá er mestur fjöldi flóttamanna í Líbanon, Jórdaníu og Tyrklandi en stjórnvöld þar, sérstaklega í Tyrklandi, hafa reyndar reynt að beita flóttamönnum til að skapa pólitískan þrýsting á Vesturlönd. Það er önnur saga sem ég fer kannski í í seinni ræðu. Mér þótti nú heldur langt gengið að líkja stefnunni í Danmörku við stefnu Sádi-Arabíu því að Danir hafa þrátt fyrir allt tekið við miklum fjölda flóttamanna í gegnum tíðina. Það er eflaust rétt sem hv. þingmaður segir að aðlögun hafi ekki gengið sem skyldi. Fyrir því eru margar ástæður. Þetta er, frú forseti, efni í eina af ræðunum mínum hér síðar í kvöld, aðlögunarmálin, sem eru gríðarlega mikilvæg eins og hv. þingmaður kemur inn á. Það tengist um leið þeirri staðreynd að það þarf með einhverjum hætti að stýra ásókninni því ef hún verður of mikil of hratt þá bregst aðlögunin og þá jafnvel bregðast heilu samfélögin. Ég mun til að mynda seinna í kvöld vitna í skrif þingmanns danskra sósíaldemókrata sem er af eþíópískum ættum og útskýrir hvers vegna það gangi ekki upp samtímis að vera með almennt velferðarkerfi og opin landamæri.