152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[22:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að ítreka þakkir til hv. þingmanna Pírata fyrir að taka þátt í þessari mikilvægu umræðu því að framlag þeirra hefur orðið til þess að skapa áhugaverðari umræðu en ella hefði orðið. Það er mjög merkilegt að sjá að enn á ný þegar þetta mál er rætt, því þetta er ekki í fyrsta skipti sem við ræðum þetta mál eins og við höfum nefnt áður, þá eru það fyrst og fremst þingmenn Pírata sem koma því til varnar. Framsóknarflokkurinn hefur reyndar nokkrum sinnum sent á vettvang einhverja til að verja þetta í stöku ræðu en Framsóknarmennirnir virðast þó ekki þekkja málið eins vel og Píratarnir og hafa helst viljað nálgast það alltaf í einhverjum allt öðrum forsendum heldur en út frá innihaldinu. Hv. þingmenn Pírata mega eiga það að þeir eru að ræða pólitík, stefnu í þessum málaflokki og hugsanleg áhrif þessa máls á það hvernig hún muni þróast. En ég myndi vilja spyrja hv. þingmann út í það sem mér hefur þó þótt dálítið sérkennilegt í annars áhugaverðum ræðum þingmanna Pírata, að Ísland sé ekkert sérstaklega aðlaðandi áfangastaður fyrir fólk sem kynni að vilja leita sér betri lífskjara. Nú liggur það fyrir að lífskjör eru óvíða betri en á Íslandi og ég held að við hljótum að geta verið sammála um að Ísland er mjög gott land að búa í. Svoleiðis að þegar upplýsingar dreifast um heiminn í auknum mæli, (Forseti hringir.) því skyldi ekki fólk sem býr við fátækt vilja nýta tækifærið ef það gefst til að flytja til Íslands?