152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[22:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það hefur verið nokkrum sinnum reynt að draga fram sjónarmið sem snúa að þessum svokallaða „pull factor“ á ensku, með leyfi forseta, auknu aðdráttarafli vegna breyttra reglna. Hv. þingmaður hefur komið inn á það vissulega fyrr, bæði í ræðu og andsvari, og kannski eru sjónarmið okkar í þessum efnum alveg ósamrýmanleg. En hvað væri það helst að mati hv. þingmanns í breyttum reglum, gangi þær eftir eins og þær eru útlistaðar í þessu frumvarpi, sem væri líklegt til að auka „pull factor“ og fjölda umsókna hér umfram það sem nú er? Ég vísa í ræðu sem ég veit að hv. þingmaður hlustaði á, ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hér í byrjun umræðunnar, þar sem dæmi var tekið um tiltekið atriði í Finnlandi þar sem reglum var breytt og fjöldi umsókna jókst skyndilega mjög mikið. Hvað er það helst í þessu? Ég veit að svona heildarskoðun hv. þingmanns gagnvart þessu er sú að þetta hafi ekki þau áhrif sem ég hef áhyggjur af. En hvað teldi hv. þingmaður líklegast til að hafa áhrif, ef einhver, miðað við það hversu óvænt þetta kom upp hjá Finnunum forðum, þessi smávægilega breyting sem þeir gerðu sem hafði þau miklu áhrif sem raunin varð á umsóknir?