152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[23:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þá held ég áfram þar sem frá var horfið. Ég var byrjaður að ræða þessi svokölluðu áhrif aðdráttarafls, „pull factor“ sem útlendingar kalla, og hin hliðin á því er það sem kallað er „push factor“, hvernig myndum við þýða það, herra forseti? Það er það sem ýtir fólki af stað. Þetta þarf auðvitað að skoðast í samhengi. En af þessu tvennu, þegar kemur að því að móta stefnuna þannig að hún verði sem skilvirkust og árangursríkust, þá benda margir reyndir menn á það að það sé óhjákvæmilegt að líta á aðdráttaraflið.

Hér hefur verið nefnt dæmi frá Finnlandi um hversu hratt þetta getur breyst, þetta aðdráttarafl, og hversu mikil áhrif það getur haft með skömmum fyrirvara, hvað þá hér á Íslandi. Meðal þessarar fámennu þjóðar í þessu gjöfula og velstæða landi þá getur tiltölulega lítil breyting á straumnum haft mjög mikil áhrif mjög hratt og jafnvel það hratt að það verði of seint að bregðast við. Dæmið frá Finnlandi snerist um 50.000–60.000 manns sem komu á skömmum tíma á vegum einhverra sem áður hefðu beint þeim straumi til Belgíu.

Hvað ef tugir þúsunda streymdu skyndilega til Íslands? Er það útilokað? Ég heyrði einhvern hv. þingmann Pírata, ég held að það hafi verið hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson, halda því fram hér áðan að menn kæmust hvort eð er ekki nógu hratt til Íslands af því að ferðast þyrfti með flugi þannig að það gætu ekki komið hundruð eða þúsundir hingað. Ja, reyndar komu vel yfir milljón ferðamenn til landsins fyrir ekki svo löngu síðan og ef straumurinn yrði hingað með flugi þá myndu flugfélög eflaust mæta því.

Þetta er eitthvað sem við hljótum að vilja ræða. Þetta snýst um getu okkar til að aðstoða nauðstatt fólk. Þetta snýst líka einfaldlega um framtíð þjóðarinnar. En hér vill ríkisstjórnin einhvern veginn smeygja þessu í gegn, helst án umræðu því það hefur skort mjög á þátttöku stjórnarliða í umræðu um þetta, og eftirláta kerfinu síðan að útfæra þetta og starfa eftir því. Þó að það geti haft gríðarleg áhrif á íslenskt samfélag þá er þessi ríkisstjórn ekki uppteknari af stjórnmálum en svo að hún vill helst bara líta undan og láta þetta einhvern veginn ganga í gegn að því marki að annað mál sem varðar hælisumsóknir, og ríkisstjórnin hefur ítrekað gert tilraun til að koma í gegnum þingið, er sett aftast á dagskrá þingsins. Það er 1. umr. Hér erum við í 2. umr. um þetta mál.

Það er kannski lýsandi fyrir stöðuna innan ríkisstjórnarinnar núna og sérstaklega stöðu Sjálfstæðisflokksins gagnvart samstarfsflokkunum að hann treysti sér ekki einu sinni til þess að setja þetta áherslumál til margra ára ofar á dagskrá en raun ber vitni en ætlar hins vegar að klára mál sem gengur í rauninni þvert gegn hinu, þ.e. þetta mál sem við ræðum hér, mál sem byggist miklu meira á sýndarmennsku en innihaldi. Hvað á ég við með því? Við höfum heyrt rökstuðninginn að því marki sem hann hefur komið fram hér í pontu, til að mynda frá nokkrum hv. þingmönnum Pírata, um að það þurfi að sýna mannúð. Það er svolítið nálgunin með þetta, við verðum að sýna mannúð og þess vegna eiga allir að fá alla þessa þjónustu og allar þessar greiðslur jafnt, óháð því hvernig þeir koma. En það er ekki mannúð í því fólgin að fara fram með hætti sem kann að líta ágætlega út ef menn fara ekki undir yfirborðið, kafa ekki undir yfirborðið, en gerir okkur um leið erfiðara fyrir að aðstoða þá sem þurfa mest á aðstoð að halda, og þetta mál gerir það eins og ég mun koma að í nokkrum atriðum (Forseti hringir.) sem lýsa því hvers vegna þetta mál muni ekki skila tilætluðum árangri. (Forseti hringir.) Mér finnst eins og ræðutíminn styttist sífellt, herra forseti, en bið yður fyrir vikið að skrá mig aftur á mælendaskrá.