152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[23:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Næst ætla ég að fjalla um mat hæstv. ráðherra á áhrifum þessa frumvarps. Þegar ég tók stóru myndina saman í upphafsræðu minni reyndi ég að leggja áherslu á hversu galin sú staða er að hér séum við að ræða frumvarp þar sem liggur fyrir að svokallað mat á áhrifum tekur ekki á þeim afleiddu áhrifum sem blasir við að verða af samþykkt þess. Hér segir í greinargerðinni, í inngangshluta kaflans um mat á áhrifum, með leyfi forseta:

„Í ljósi mikillar fjölgunar einstaklinga með vernd á síðustu árum er mikilvægt að ríki og sveitarfélög tryggi fólki samfellda og jafna þjónustu. Með samræmdu móttökukerfi er unnið að því að tryggja jafna þjónustu óháð því hvernig einstaklingar með vernd komu til landsins ásamt nauðsynlegri aðstoð til að vinna úr áföllum en jafnframt sjá til þess að þeir sem í hlut eiga fái fljótt tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, hvort sem það er á vinnumarkaði, varðandi menntun eða á öðrum sviðum.“

Áfram er rauði þráðurinn hér í gegn þessi: Það er vandalaust að manni sýnist að ná fram markmiðum frumvarpsins um bætta og styrkari stöðu Fjölmenningarseturs til að vera sveitarfélögum til ráðgjafar og stýra betur, ef svo má segja, því hvar hver einstaklingur eða fjölskylda lendir, þ.e. gagnvart sveitarfélögum og í hvers lags umhverfi, án þess að fella alla sem hingað koma, sama með hvaða hætti þeir koma til landsins, undir sama hatt. Það er alveg vandalaust. En það er með einhverjum feluleik að því er virðist reynt að ná því markmiði fram án þess að vilja raunverulega segja það.

Það eru afleiddu áhrifin af þessu sem ég hef áhyggjur af. Við þekkjum öll hugtakið, með leyfi forseta, „human trafficking“. Mansal er oft notað í því samhengi en ég verð að viðurkenna að ég veit ekki alveg hvort það hugtak er við hæfi í þessu samhengi eða hvort annað er notað af þeim sem betur þekkja til og eru sérfræðingar akkúrat í þessu efni. En þetta er iðnaður og það þekkja auðvitað allir sem í þessu hafa starfað. Aftur minni ég á þá sögu sem hér var farið yfir áðan um áhrifin sem komu fram í Finnlandi þar sem smávægileg breyting á innflytjendalöggjöfinni varð þess valdandi að tugir þúsunda umframumsókna bárust skyndilega án þess að nokkur maður áttaði sig á hvað ylli því. Það sýnir auðvitað hversu hratt það getur gerst að straumurinn aukist mjög verulega. Við sjáum þær tölur sem blasa við okkur í tölfræði Útlendingastofnunar, hversu mikill fjöldi umsókna er hér á landi miðað við nágrannaþjóðir okkar hlutfallslega. Um leið og ég segi þetta verð ég alltaf að minna á, í ljósi þess hversu margar ræðurnar verða hér í kvöld vegna þess hversu stuttur ræðutíminn er hverju sinni, að við eigum að gera vel í þessum efnum og við eigum að gera vel við þá sem við tökum á móti en við eigum ekki að færast of mikið í fang. Það er það versta sem við getum gert fyrir alla.

Í þessu mati á áhrifum í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu verður starfsemi Fjölmenningarseturs efld.“ — Ég geri engar athugasemdir við það. — „Stofnunin tekur við nýjum verkefnum og fjölbreyttum þjónustuverkefnum vegna móttöku einstaklinga með vernd. Gert er ráð fyrir að ný verkefni Fjölmenningarseturs kalli á þrjú viðbótarstöðugildi auk starfstengds kostnaðar sem nemur árlega um 40,8 millj. kr. ásamt einskiptiskostnaði vegna búnaðarkaupa að fjárhæð 1 millj. kr. Kostnaðarauki ríkissjóðs er að fullu fjármagnaður innan ramma málefnasviðs 29.“

Þetta er bara ekki stóra málið. Þessar rúmu 40 milljónir sem þarna eru tilgreindar eru því miður algjör afgangsstærð ef reynt er að leggja mat á það hver raunveruleg áhrif verða. Ég ítreka bara það sem ég sagði hér fyrr í dag: Það er nauðsynlegt á milli umræðna að óska eftir því að fjármálaráðuneytið leggi raunhæft mat á hver afleidd áhrif þessa frumvarps geta orðið (Forseti hringir.) og málið gangi þá til nefndar á milli 2. og 3. umr.

Virðulegur forseti. Ég vil biðja þig um að setja mig aftur á mælendaskrá, ég er rétt að komast inn í þetta.