152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[23:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég var að hefja umræðu um eðli vandans sem við er að eiga og sérstaklega með tilliti til þess þegar nálgun stjórnmálanna, stefna, byggist á sýndarmennsku umfram innihald. Árið 2015 jókst straumur flóttamanna til mikilla muna, m.a. en ekki eingöngu vegna stríðsins í Sýrlandi. Það ár fór ég sem forsætisráðherra í ferð til Möltu og til Líbanons til að kynna mér aðstæður flóttamanna og aðgerðir alþjóðastofnana til að takast á við þennan vanda. Það var mjög lærdómsríkt, herra forseti, og gagnlegt hvað það varðar að leitast við að móta stefnu sem er til þess fallin að ná árangri. Flóttamenn sem ég hitti í Líbanon, í flóttamannabúðum bæði Palestínumanna og Sýrlendinga, sögðu flestir sömu sögu, einkum þó Sýrlendingarnir. Þá langaði að geta snúið aftur heim. Yfirgnæfandi meiri hluti þeirra var þeirrar skoðunar. Þeir vildu geta snúið heim aftur.

Í mörgum þessara búða skorti nauðsynlega þjónustu. Þær voru reyndar mjög ólíkar, sums staðar ágætis aðstaða, matur, rennandi vatn og hiti og allt það sem þurfti, annars staðar mun fátæklegri aðstæður, en það fór meira og minna eftir því hversu mikinn stuðning þessar búðir fengu frá útlöndum. Líbanon var að taka á móti gríðarlegum fjölda fólks, vel yfir milljón manns, en stjórnvöld á Vesturlöndum sinntu þessu lítið, sinntu því lítið að aðstoða í nærumhverfinu, a.m.k. hlutfallslega mjög lítið miðað við það sem tilefni var til. Þá sá maður að stjórnmálamenn allt of víða virtust fyrst og fremst vera að hugsa um það í ákvörðunum sínum: Hvernig kemur stefnan út fyrir mig? Hversu sýnilegt er það að ég sé að aðstoða, að ég sé góður? Ef stjórnmálamaðurinn gat mætt á brautarstöð og tekið á móti flóttamönnum sjálfur komst það í blöðin og vakti kannski athygli en fjármagn sem var sent til að aðstoða þar sem það gerði þó jafnvel tífalt meira gagn heldur en í Vestur-Evrópulöndunum vakti minni athygli. Þá tóku einfaldlega allt of margir stjórnmálamenn þann pól í hæðina að gera það sem leit betur út á yfirborðinu fremur en að gera það sem skilaði mestum árangri og hjálpaði flestum.

Hér reyndum við í viðbrögðum okkar að líta á heildarmyndina, að blanda þessu öllu saman og veita bæði mjög aukinn stuðning á nærsvæðunum og taka á móti fleira fólki en vandinn hvað varðar stefnumörkunina er dýpri en svo að þetta snúist bara um yfirborðsmennsku nútímastjórnmálanna því að flóttamannakerfið sem starfað er eftir, til að mynda samningur Sameinuðu þjóðanna um móttöku flóttamanna frá 1951, er byggt á allt annars konar heimsmynd, allt annars konar heimi heldur en raunin er nú.

Þetta er ekki nýtilkomið, herra forseti. Fyrir vikið virkar þetta fyrirkomulag ekki lengur. Það virkar til að mynda ekki til að takast á við þá staðreynd að meiri hluti þeirra flóttamanna eða hælisleitenda sem koma til Evrópu nú, að mati Evrópusambandsins, er fólk sem er hingað komið í leit að betri lífskjörum en ekki eiginlegir flóttamenn. Þetta fólk kemur þó í mörgum tilvikum á sömu fleytum, á sömu lífshættulegu bátunum yfir Miðjarðarhafið og Ermarsundið og Eyjahaf. En meiri hlutinn, ungir hraustir karlmenn, (Forseti hringir.) er að leita gæfunnar, betri lífskjara, er að nýta fyrirkomulag sem var hannað til að taka á allt öðru. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Nú er ég rétt að komast af stað með þennan þátt málsins og bið yður því að skrá mig aftur á mælendaskrá.