152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[23:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hv. þm. Bergþór Ólason kom inn á hlut sem ég var ekki búinn að gera mér fulla grein fyrir. Það væri freistandi að biðja hv. þingmann að fara nánar út í þetta en ég verð að láta það bíða vegna þess að ég var kominn á skrið í að ræða eðli þess vanda sem við er að eiga og vil ekki missa þráðinn. Ég var búinn að geta um það að jafnvel Evrópusambandið bendir á að meiri hluti þeirra sem koma sem hælisleitendur til Evrópu síðustu árin séu karlmenn fyrst og fremst, ungir karlmenn í leit að betri lífsgæðum. Ég tek fram, herra forseti, að ég sýni því auðvitað mikinn skilning og það má jafnvel telja það einfaldlega til marks um dugnað að menn nýti þau tækifæri sem gefast til að leita betri lífskjara. En engu að síður, að blanda því saman við hælisleitendakerfið er til þess fallið að skemma það kerfi og gera okkur erfiðara fyrir að aðstoða þá sem eru í mestri neyð. Meiri hluti þeirra sem koma til Evrópu, aftur að mati Evrópusambandsins, er líka fólk sem kemur á vegum glæpagengja sem starfa mjög víða í Afríku og í Asíu, ekki hvað síst. Þetta er orðin starfsemi sem skilar, hugsa ég, í flestum löndum meiri tekjum en vopnasala og eiturlyfjasala. Ég hef alla vega lesið í fréttum mörg dæmi um það að þessi starfsemi, mansal eða það að smygla fólki, skili meiri tekjum heldur en sú glæpastarfsemi sem til þessa hefur verið talin einna tekjudrýgst. Ég nefni mansal og það er ekki að ástæðulausu. Ýmist hefur fólk safnað lengi fyrir miðanum, ef svo má segja, fyrir því að fá að komast með í þessar ferðir sem eru mjög dýrar, 10.000 dollarar eða evrur er ekki óalgengt uppsett verð, eða fjölskyldan hefur safnað peningum í sameiningu eða, það sem er nú hættulegast í þessu öllu og er því miður allt of algengt, að menn setji sig í skuld. Þeir eigi ekki 10.000 evrur til að leggja af stað í þessa hættuför en greiði fyrir með því að skuldsetja sjálfa sig. Hvernig er sú skuld greidd? Hún er innheimt af hörku þegar komið er til til þeirra landa sem stefnt er á og viðkomandi oft neyddur í glæpastarfsemi í þeim löndum til að greiða skuldina. Þetta er mansal, herra forseti. Í tilviki kvenna sérstaklega er þetta oft innheimt með því að neyða konur í vændi. Svoleiðis að þetta er ekki bara spurning um hættuna sem felst í ferðalaginu sjálfu og það getur verið mjög hættulegt, ég tala nú ekki um þegar börn eru send af stað. Ég ætla ekki einu sinni að lýsa þeim sögum sem maður hefur lesið í fréttum af þeim hremmingum sem börn sem eru send í slíka ferð geta lent í. En það er sem sagt ekki bara ferðalagið sjálft heldur það sem tekur við þegar komið er á staðinn sem getur reynst fólki hættulegt, jafnvel lífshættulegt.

Þessi gengi sem stunda þessa ábatasömu starfsemi, því miður, auglýsa sig með ýmsum hætti og hafa nýtt sér nútímatækni, m.a. samfélagsmiðla, þar sem birtar eru myndir frá öðrum löndum og lýsingar á þess á því hvers sé að vænta, kaupi menn ferðina. Oft eru líka (Forseti hringir.) villandi myndir um það hvernig ferðin gangi fyrir sig.

Herra forseti. Nú er ég rétt að hefja þessa lýsingu á hvernig þessi gengi starfa og bið yður því um að setja mig aftur á mælendaskrá.