152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[23:56]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Í greinargerð frumvarpsins er fjallað um 2. gr. og sú útskýring tekur yfir rúma blaðsíðu. Það er ekki alveg augljóst að þarna sé verið að mæla fyrir þeim auknu réttindum sem tilteknir hópar munu njóta á grundvelli þessarar lagabreytingar og hæstv. ráðherra staðfesti, í andsvörum við framsöguræðu sína, hvað í þeim réttindum felst. Í 2. gr. er upptalning á þeim fimm hópum sem eiga að njóta þess að falla undir reglur um samræmda móttöku einstaklinga með vernd. Mér sýnist í fljótu bragði eingöngu vera fjallað um þá þætti sem ég fór yfir í kafla um meginefni frumvarpsins fyrir stuttu síðan. Hér virðist engin tilraun gerð til þess að útskýra fyrir okkur þingmönnum eða þeim sem frumvarpið skoða hver réttindamunurinn er á milli flokka að frumvarpinu innleiddu. Þar sem fjallað er um 2. mgr. 2. gr. segir, með leyfi forseta:

„Í 2. mgr. er kveðið á um að Fjölmenningarsetur, að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélag, bjóði einstaklingum með vernd að setjast að í tilteknu móttökusveitarfélagi. Í þessu felst að Fjölmenningarsetur vinnur upplýsingar annars vegar um móttökusveitarfélag og hins vegar um einstakling með vernd og parar saman einstakling og sveitarfélag út frá einstaklingsbundnum aðstæðum.“

Þetta er allt ágætt og bara fínt markmið sem er vandalaust að útfæra án þess að breyta annarri réttindastöðu jafn mikið og hér er ætlunin að gera.

Hæstv. forseti. Er vitað hvort hæstv. ráðherra er í húsi? Liggur það fyrir? Ég er ekki að óska eftir að verði kallað eftir honum heiman frá sér.

(Forseti (BÁ): Það liggur ekki fyrir.)

Í ljósi þess hvað það atriði sem snýr að þessari breyttu réttindastöðu virðist mjög óljóst í frumvarpinu þá finnst mér varla boðlegt annað en að hér verði einhver til svara. Ég minni á að ég er nýbúinn í annarri ræðu minni um málið og hafði hreinlega ekki áttað mig á hversu miklar upplýsingar um þessa þætti vantar inn í frumvarpstextann. Þetta skýrir kannski af hverju stjórnarþingmenn taka ekki þátt í umræðunni vegna þess að textinn eins og hann liggur fyrir kallar ekki í sjálfu sér á að til að mynda þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem vilja flesta daga fara varlega með ríkisfjármuni, geri neinar sérstakar athugasemdir um þessa þætti því að um þá virðist ekki fjallað. Menn fara þar a.m.k. eins og köttur í kringum heitan graut og reyna að hafa sem minnst hönd á festandi það atriði er rammar inn það sem ég taldi upp hér áðan í tíu stafliðum um réttindi kvótaflóttamanna. Það væri engin ástæða að tilgreina réttindi kvótaflóttamanna með jafn skýrum hætti og taka sérstaklega fram að þetta fjallaði um svokallað kvótaflóttafólk í þessari upptalningu ef þessi réttindi væru hin sömu fyrir og eftir innleiðingu þessa máls gagnvart þeim fjórum hópum sem koma fram í upptalningu í 2. gr. frumvarpsins. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Ég vil biðja þig að setja mig aftur á mælendaskrá.