152. löggjafarþing — 70. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[00:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar hér á meðan ég bíð þess að vonandi mæti hv. þm. Jódís Skúladóttir, framsögumaður nefndarálits meiri hluta, í salinn, sé hún enn í húsi, að setja umfjöllun um frumvarpstextann og greinargerð aðeins til hliðar í bili og fjalla hér fyrst stuttlega um það sem hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson kom inn á í ræðu sinni áðan. Það má hafa verið í andsvari en ég held það hafi verið í ræðu hv. þingmanns þar sem þingmaðurinn fór yfir flæði mismunandi hópa hvað hælisumsóknir eða ósk um vernd varðar og nefndi þar sérstaklega að ástæða þess að það væri jafn algengt og raunin er að ungir karlmenn væru einir á ferð á flótta væri sú að þeir tilteknu einstaklingar vildu forðast það að fjölskyldur þeirra og börn væru á flótta með þeim. Þeir vildu ná að komast á endastöð, ef svo má segja, og koma sér fyrir og sækja fjölskyldu sína á grundvelli fjölskyldusameiningar síðar.

Þetta er atriði sem væri virkilega áhugavert að greina með ítarlegri hætti því þetta er auðvitað það sem hefur býsna oft verið gagnrýnt margra hluta vegna, sá fjöldi karlmanna á besta aldri sem koma hingað einir. Ef þetta er raunin, sem vel má vera, þá held ég að það væri til mikilla bóta að þær upplýsingar lægju fyrir. Bæði mun það þá rétta af umræðuna í þessu samhengi en sömuleiðis mögulega setja okkur í þá stöðu að nauðsynlegt sé að ræða hvort væri ekki einhver betri háttur hafandi á því að fjölskyldur sæktu sér vernd hingað en með þessum hætti. Það hlýtur að vera einhver tölfræði til um það hjá Útlendingastofnun hversu algengt það er að ungir karlmenn sem komu hingað einir séu síðan í framhaldinu að sækja fjölskyldurnar til sín á grundvelli fjölskyldusameiningar. Ég hélt raunar að hitt væri algengara, að karlmenn fylgdu á eftir á grundvelli fjölskyldusameiningar. En þetta er atriði sem við þurfum að ræða í stóru myndinni til að greina með hvaða hætti kerfið getur best orðið að gagni fyrir þá sem mest þurfa á aðstoð að halda. Ef staðan er sú að ungir karlmenn eru hafðir fyrir rangri sök í þessum efnum er mikilvægt að það komi fram og þeim sem halda utan um tölfræðiupplýsingar í þessum efnum ætti að vera það í lófa lagið að skýra þá í eitt skipti fyrir öll þann fjölda sem maður hefur veitt athygli að ýmsum þykir sérstök tölfræði að sjá hvað þá hópa varðar sem hér sækja um vernd. Jafnframt þarf að greina hvaða hópar það verða, ef áhyggjur þess sem hér stendur reynast á rökum reistar, sem mest bætir í hvað fjölda umsókna varðar og hvort í því felist einhver skilaboð þegar að því kemur.

Ég sé að tíminn er að renna frá mér, hæstv. forseti. Ég vil óska eftir því, svona upp á samhengi hlutanna, að verða settur á mælendaskrá aftur.