152. löggjafarþing — 70. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[00:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar í þessari ræðu minni að koma nokkuð inn á það sem er, að ég held, tilefni þess að þetta mál sé tekið til 2. umr. í þessari stöku viku milli hléa, fyrst páskahlés þingsins og síðan hlés á þingfundum vegna sveitarstjórnarkosninga. Það er aukinn fjöldi flóttamanna frá Úkraínu sem eru að flýja þá alvarlegu stöðu sem þar er uppi og þær stríðsógnir sem þar eru. Ég verð að segja að sem betur fer er það nú þannig, heyrist manni, að ef guð lofar teygist þetta ástand í Úkraínu ekki á langinn, en hvað vitum við eins og er? En mér heyrist flestir ef ekki allir sem þaðan flýja þessar vikurnar hafa vonir um að geta snúið aftur til baka sem fyrst þannig að fjöldi umsókna frá Úkraínu er allt annars eðlis en það sem við erum að horfa á til lengri tíma í þessu samhengi.

Ég held að við verðum að líta á verkefnið sem felst í því að taka vel á móti þeim flóttamönnum sem koma frá Úkraínu sem sjálfstætt, afmarkað verkefni. Í því ljósi tel ég enga þörf og í rauninni alveg fráleitt að tengja lúkningu þessa máls við komu flóttamanna frá Úkraínu. Hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson sagði í ræðu fyrr í kvöld að hann teldi að fjölgun umsókna flóttamanna í ár, vegna straumsins frá Úkraínu gef ég mér að hafi verið, væri tíföld frá því sem mest var á undanliðnum árum. Það kæmi mér ekkert á óvart að fjöldinn gæti endað í einhverjum slíkum tölum að umfangi. Þetta kallar ekki að mínu mati á þessar breytingar vegna þess að þær breytingar sem er fjallað um hér, og þá er ég að tala um réttindi Fjölmenningarseturs til að greina betur og stýra flæði umsækjenda til þeirra sveitarfélaga sem eru með samning við ráðuneytið, eru allt annars eðlis en það verkefni sem við stöndum frammi fyrir gagnvart komu flóttafólks frá Úkraínu.

Þetta lyktar svolítið af því að eins og í gegnum Covid-tímabilið, sérstaklega framan af því, voru ýmis mál sett í kórónujakkaföt eins og það var einhvern tímann sagt hér í þingsal, til að flýta för þess tiltekna frumvarps í gegnum þingsal án þess að efnisatriði þess kölluðust neitt á við stöðu heimsfaraldursins á þeim tíma. Ég held að það blasi við að það sama eigi við um þetta mál, að hraðmeðferð núna í gegnum þingið á þessari stöku viku verði í öllu falli ekki rökstudd með fjölda umsókna frá Úkraínu. Það væri alveg fráleitt og jaðrar við að ég leyfi mér að kalla það tækifærismennsku ef það er reynt. En það má auðvitað segja sömuleiðis að mál séu hér hjá þinginu svona með einum eða öðrum hætti á færibandi og nefndarálit vegna þessa máls var tilbúið og með þeim rökum mætti taka það á dagskrá. En séu þau rökin viðhöfð þá held ég að við ættum að gefa okkur tíma til þess að leiða í jörð þær áhyggjur sem við höfum hér, Miðflokksmenn, og séu áhyggjur okkar að mati þeirra sem best þekkja til á misskilningi byggðar, þ.e. varðandi afleiddu áhrifin og síðan áhrifin af þessum auknu réttindum fjögurra tilgreindra hópa — séu þau með öðrum hætti en við erum að lýsa hér og teljum líklegt þá ætti að geta náðst býsna góð sátt um þetta frumvarp (Forseti hringir.) en hún næst ekki eins og haldið er á málum nú um stundir með samanlagt einni ræðu allra stjórnarliða í umræðunni hér í kvöld, fyrir utan andsvör auðvitað.