152. löggjafarþing — 70. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[00:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Enn nefnir hv. þm. Bergþór Ólason hluti sem mig langar mjög að bregðast við og ræða en ég ætla að reyna að halda þræði í bili varðandi það tiltekna atriði sem ég er að fara yfir hér, en eflaust gefst tækifæri síðar í nótt til að ræða þetta áfram. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir virðulegan forseta og stjórnarmeirihlutann allan að í svona stóru og mikilvægu máli skuli bara einn stjórnarliði hafa séð ástæðu til að taka þátt í umræðunni í 2. umr., aðalumræðunni. Það er furðulegt.

Herra forseti. Ég var að ræða þær breytingar sem hafa valdið mjög auknum straumi flóttamanna og förufólks og ástæðan fyrir að ég rek þetta hér, undirliggjandi staðreyndir málsins, er að við þurfum að þekkja hvað liggur að baki til að geta brugðist við af skynsemi. Ég nefndi dæmið um Nígeríu því að margir þeirra sem leita betri lífskjara á Vesturlöndum koma frá því landi. Það er mjög skiljanlegt, ég ætla að taka það skýrt fram, herra forseti. Ef maður væri fæddur í Nígeríu myndi maður eflaust nota hvert tækifæri sem gæfist til að leita aukinna lífsgæða í öðrum löndum. Þó er það nú svo að lífsgæði í Nígeríu eru að aukast töluvert. Þá minni ég hæstv. forseta á það sem ég rakti áðan um áhrif aukinna lífsgæða á ferðir fólks. Ég nefndi mikla eign landsmanna á farsímum og fjarskiptatækjum, en landsmenn í Nígeríu eru býsna margir. Þeir nálgast nú 200 milljónir í þessu ríki einu og hagkerfið vex hratt á sama tíma. Gert er ráð fyrir því að árið 2045 — og það er nú ekki eins langt þangað til eins og það kann að hljóma, það eru nú ekki nema rúm 20 ár í það, 23 ár, og sá tími er fljótur að líða — verði Nígería orðin fjölmennara land en Bandaríkin. Þá verði landsmenn orðnir um 450 milljónir, 450 milljóna manna markinu verði náð, reyndar 2050 í síðasta lagi, en hugsanlega fyrr. Mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna, sem hefur reglulega bætt í spána fyrir Nígeríu og reyndar önnur lönd undanfarin ár, gerði árið 2008 ráð fyrir að íbúar landsins yrðu 290 milljónir árið 2050. Það er sem sagt búið að uppfæra þessa spá á nokkrum árum úr 290 milljónum upp í 450 milljónir. Á nokkrum árum er spáin uppfærð um 160 milljónir manna í einu landi. Svo má nefna Úganda. Þar er helmingur íbúanna núna yngri en 15 ára og landsmenn þar eru orðnir um 40 milljónir. Þeir verða komnir yfir 100 milljónir eftir 30 ár í Úganda. Við lok aldarinnar verða 14 af 25 fjölmennustu ríkjum heims í Afríku en þá mun ekkert land í Evrópu komast á þann lista. Af 25 fjölmennustu ríkjum heims verða 14 í Afríku, ekkert Evrópuland, við lok aldarinnar.

Norður af Nígeríu er landið Níger. Það er fátækasta land heims á ýmsa mælikvarða, situr á botni lífsgæðalista Sameinuðu þjóðanna þar með talið, en hvergi í heiminum fjölgar fólki eins hratt og í Níger. Því er spáð að við lok þessarar aldar verði Níger orðið tvöfalt fjölmennara en Rússland, herra forseti. Níger, kannski land sem fáir þekkja, fátækasta land heims, verði við lok aldarinnar orðið tvöfalt fjölmennara en Rússland. Nágrannarnir í suðri, Nígeríumenn, (Forseti hringir.) verða þá orðnir nærri jafn margir og Kínverjar. (Forseti hringir.)

Ég efast ekki um að hæstv. forseti geri sér grein fyrir að hér er ég með aðdraganda að einhverju sem hlýtur að fylgja á eftir og bið hæstv. forseta fyrir vikið að setja mig á mælendaskrá.