152. löggjafarþing — 70. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[01:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar að segja nokkur orð í tengslum við persónuverndarsjónarmið í þessu máli sem eru töluvert umfangsmikil. Persónuvernd hefur nú þrisvar sinnum í heildina sent inn umsagnir vegna málsins og manni sýnist á öllu að það sé næstum því þannig að stofnunin hafi gefist upp á því að leggja til lagfæringar á málinu. Núna þegar það kemur fram í þriðja sinn lætur stofnunin duga að segja í umsögn, með leyfi forseta:

„Athygli er þó vakin á því að ef mat á áhrifum er ekki framkvæmt við undirbúning löggjafar“ — sem hefur enn ekki verið gert — „þá ber Fjölmenningarsetri að framkvæma slíkt mat áður en vinnsla persónuupplýsinga hefst.“

Þetta segir stofnunin Persónuvernd eftir að hafa í fyrri umsögn feitletrað, með leyfi forseta:

„Ekki verður séð að orðið hafi verið við athugasemdum Persónuverndar og eru þær því ítrekaðar í umsögn stofnunarinnar nú.“

Því er alveg ósvarað í málinu öllu hvers vegna þetta mat hefur ekki átt sér stað. Það er hreinlega alveg furðulegt hafandi það í huga að þessum sjónarmiðum hefur verið haldið til haga alveg síðan í umsögn Persónuverndar um málið við fyrstu framlagningu þess sem var 18. febrúar 2020. Það eru rúm tvö ár síðan. Í niðurlagi þeirrar umsagnar segir:

„Ekki verður séð að mat á áhrifum frumvarpsins á persónuvernd hafi verið hluti af almennu áhrifamati í tengslum við samþykkt þess […] Persónuvernd telur að nauðsynlegt sé að framkvæma slíkt mat af hálfu löggjafans, meðal annars með hliðsjón af þeim athugasemdum sem stofnunin hefur gert við frumvarpið. Forsendur matsins og niðurstöður þess þyrftu að koma fram í lögskýringargögnum.“

Það skýrir kannski að einhverju leyti hversu erfitt er að fá einhvern hér til samtals þegar meira að segja um persónuverndarsjónarmiðin er skeytt jafn litlu við vinnslu málsins og hér kemur fram. Það kom fram hjá hv. framsögumanni nefndarálits meiri hluta að þetta mat lægi enn ekki fyrir, rúmum tveimur árum síðar, þrátt fyrir þessa áeggjan, þrátt fyrir feitletraðan texta í umsögn stofnunarinnar þar sem lögð var áhersla á að þetta yrði að færa til betri vegar. Síðan ætla ég að leyfa mér að kalla þetta hálfgerða uppgjöf þegar um það er fjallað á þeim nótum að verði þetta ekki unnið þá megi Fjölmenningarsetur í öllu falli ekki byrja að vinna eftir lögunum eða að vinna persónuupplýsingar fyrr en slíkt mat hefur átt sér stað að lögunum samþykktum. Þetta er sagt eftir að búið er að benda á, eins og ég sagði áðan, að ekki verði séð að orðið hafi verið við athugasemdum Persónuverndar og þær því ítrekaðar í umsögn stofnunarinnar. Miðað við þær rúmu heimildir sem veita á í þessum efnum og miðað við þau miklu varnarorð sem viðhöfð eru hér í ýmsu öðru samhengi varðandi persónuvernd þeirra sem leita verndar hér á landi þá fer einhvern veginn ekki alveg saman hljóð og mynd í þessu. Hér virðast menn ætla að kasta til hendinni hvað persónuverndarsjónarmið varðar eða í öllu falli gefa það svigrúm sem nokkur kostur er að réttlæta, á meðan í öðrum málum þess málaflokks standa menn í vörninni alveg fram í rauðan dauðann. Það væri forvitnilegt að reyna að átta sig á hvað veldur þessari mismunandi nálgun á persónuverndarsjónarmið fólks sem leitar verndar hér á landi.

Ég bið hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.