152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

fyrirkomulag við sölu Íslandsbanka.

[11:22]
Horfa

Erna Bjarnadóttir (M):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra fyrir svarið og mér finnst málið vera smám saman að teikna sig æ skýrar upp og það virðist augljóst að hér er mikið um eftiráskýringar að ræða. Er ráðherrann sammála því mati mínu að það hefði verið sjálfsagt að gera allítarlega handbók um þetta söluferli í fjármálaráðuneytinu áður en það fór af stað til að lýsa því til hvers nákvæmlega var ætlast og hvernig það átti að nást fram og með hvaða aðferðum og síðan önnur handbók frá Bankasýslunni til söluráðgjafanna? Í ljósi þess hversu gríðarlega viðkvæmt þetta ferli er, var slík handbók einhvern tíma til umræðu eða kynnt á fundum ráðherranefndar um efnahagsmál? Telur hæstv. ráðherra það hugsanlegt að þegar svona útboð fer fram á banka í ríkiseigu í Evrópu þá sé hringt í hobbífjárfesta og spákaupmenn og þeim boðin sneið af kökunni?