152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[11:38]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir kom hér upp áðan og talaði um tjónið fyrir íslenska ríkið, að almenningur hefði orðið fyrir tjóni. Við skulum aðeins fara yfir staðreyndir máls þegar þessu er haldið fram. Ríkið tók yfir banka. Það er búið að búa til stórkostleg verðmæti (Gripið fram í.) úr Íslandsbanka. Það er búið að selja núna hluta úr bankanum og 108 milljarðar (Gripið fram í.) — 108 milljarðar (Gripið fram í.) hafa skilað sér inn í ríkissjóð. 80 milljarðar í formi arðgreiðslna (Gripið fram í.) og við eigum eftir stærsta hlutann í bankanum sem er líklega virði annarra 100 milljarða. Þetta er þá allt tjónið sem almenningur hefur orðið var við, allt tjónið, allir þessir peningar sem hafa runnið inn í ríkissjóð. (Gripið fram í.) Ef við ætlum raunverulega að gera það sem skiptir máli til að endurbyggja traust á fjármálamarkaðnum þá þurfum við að sjálfsögðu að fara yfir það sem hefur farið úrskeiðis. En það var ekki tjón almennings, það er brot á ákveðnu trausti. Þess vegna vil ég hvetja hv. þingmenn (Forseti hringir.) þegar við förum í þessa umræðu til að vera málefnalegir. Tölum um staðreyndir, förum yfir það af hverju (Forseti hringir.) innherjar og starfsmenn banka geta keypt á Íslandi en geta ekki gert það í útlöndum. (Forseti hringir.) Hverju þurfum við að breyta til að koma í veg fyrir slíkt? Komum í veg fyrir að söluaðilar séu að selja (Forseti hringir.) sjálfum sér og vinum. Förum yfir þessa þætti en höldum til haga staðreyndum sem skipta máli.

(Forseti (BÁ): Við höldum okkur við ræðutímann sem er í þessum umræðum.)