152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég var enn að setja hlutina í samhengi og ræða þá gríðarlegu fólksfjölgun sem er fyrirsjáanleg víða utan Vesturlanda og nefni það sem áminningu um mikilvægi þess að við forgangsröðum og reynum fyrst og fremst að hjálpa því fólki sem þarf mest á hjálpinni að halda. Hér hafa heyrst hugmyndir frá hv. þingmönnum Pírata um að það eigi bara að vera opið og hver sem vilji koma til Íslands eigi að geta flutt hingað, enda yrði að mati hv. Pírata hvort eð er aldrei neitt sérstaklega mikil ásókn í það að koma hingað. Í fyrsta lagi héti landið Ísland. Einn hv. þingmaður nefndi það sem mikla hindrun. Í öðru lagi væri þetta svo langt í burtu og fátt eftirsóknarvert hér. En þetta er auðvitað ekki raunin, þvert á móti eins og við sjáum raungerast þessi misserin þar sem eftirspurn eftir hæli á Íslandi er orðin hlutfallslega margfalt meiri en til að mynda í Danmörku og Noregi, sem þó eru ýmist hluti af eða nær meginlandi Evrópu heldur en Ísland. 350.000 manna þjóð getur mjög fljótt lent í vandræðum ef hún ver ekki landamærin og forgangsraðar ekki. Ef við viljum gera gagn þá verðum við að forgangsraða á þann hátt að við hjálpum þeim sem þurfa mest á hjálpinni að halda og gerum það vel.

Ég var að fara yfir þróun mannfjöldans til að setja þetta í samhengi og til að útskýra hvers vegna svona kæruleysislegar yfirlýsingar á borð við það fólk muni hvort eð er ekkert koma til Íslands að neinu marki geta verið varasamar. En ef mannfjöldaspár Sameinuðu þjóðanna og Heimsborgastofnunarinnar svokölluðu, Global Cities Institute, heitir hún á útlensku, ganga eftir þá mun meiri hluti núlifandi Íslendinga upplifa það að það búi fleiri í einni borg í Nígeríu, í Lagos, heldur en í öllu Þýskalandi. Þetta mun gerast upp úr 2060. Þá verða fleiri íbúar í einni borg í Nígeríu heldur en í öllu landinu, Þýskalandi. Um svipað leyti verður heildarfjöldi Nígeríumanna orðinn meiri en allra núverandi ríkja ESB samanlagt. Ég ætla að endurtaka þetta, frú forseti: Á sama tíma verður fjöldi íbúa í þessu eina landi í Afríku orðinn meiri en íbúa allra núverandi ríkja Evrópusambandsins. Eitt land, þróunarland í Afríku, með fleiri íbúa heldur en nemur íbúum Evrópusambandsríkjanna. Og ætla menn þá að halda því fram að það sé hægt að reka fyrirkomulag í hælisleitendamálum þar sem eru engin takmörk, þar sem allir sem vilja að leita sér betri lífskjara geti komið til Íslands eða annarra Evrópuríkja? Því miður, frú forseti, það er bara ekki raunhæft. Það væri gott ef það væri raunhæft og það væri hægt að veita öllum tækifæri, fólki frá löndum sem búa við verra stjórnarfar en á Íslandi, þótt stundum sé nú að heyra á sumum hér að þeir telji að það geti varla verið víða verra en hér. En við vitum að það er vitleysa. Auðvitað væri gott ef allur heimurinn gæti flutt til Íslands og Ísland yrði áfram eins og það er. En það er ekki raunin. Það er ekki raunhæft, frú forseti. Þá segi ég enn og aftur: Eitt þróunarland í Afríku verður með fleiri íbúa eftir 40 ár, það er ekki lengra en það, innan við 40 ár, 38 ár, en nemur öllum íbúafjölda Evrópusambandsríkjanna samanlagt. Og þetta var á þeim tíma þegar Bretland var hluti af Evrópusambandinu.

Við þurfum að nálgast þetta mál út frá staðreyndum og því hvernig er best að bregðast við til að gera sem mest gagn. En aftur lendi ég í því, frú forseti, að vera rétt að komast af stað með samhengi hlutanna þegar tíminn klárast. Því bið ég yður að setja mig aftur á mælendaskrá.