152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég hef verið að nefna hér dæmi um fólksfjölgun í þróunarríkjum í samanburði við Vesturlönd til að undirstrika að þetta stóra og mikilvæga viðfangsefni sem flóttamannastraumurinn er muni einungis vaxa og það kalli þá á þau viðbrögð af okkar hálfu að við nýtum það fjármagn sem við höfum og þau tækifæri sem við getum veitt með sem skynsamlegustum hætti. Ég tók sérstaklega dæmi af Nígeríu, frú forseti. Það mætti nefna mörg önnur lönd. Ég valdi fyrst og fremst eitt land vegna þess að það er það land þaðan sem flestir hafa komið til Evrópu á síðustu árum í leit að betra lífi eða hæli. Í þessum löndum, þar með talið Nígeríu, á sér stað alveg gríðarleg uppbygging og ég held, eins og ég gat um í ræðu í gær, að margir Vesturlandabúar séu haldnir dálitlum fordómum gagnvart þróunarlöndunum og ímyndi sér að ástandið þar sé einhvern veginn miklu vanþróaðra en það þó er, til að mynda í borgum eins og Lagos sem ég nefndi. Í Nígeríu eiga yfir 90% farsíma og landið er ríkt af auðlindum. Þeir eiga olíu- og gasauðlindir eins og frændur okkar Norðmenn — og hugsanlega Íslendingar þó að ekki megi ræða það. En þegar íbúum landsins fjölgar sem nemur öllum íbúum Noregs á hverju einasta ári, en sú er raunin í Nígeríu, þá er ekki eins mikið til skiptanna og í Noregi, fyrir utan það að afraksturinn skilar sér ekki alltaf í sameiginlega sjóði. Svoleiðis að fólksfjölgunin er mikil og um leið er uppbygging mjög mikil. Í Lagos er verið að byggja nýjan borgarhluta, Eko Atlantic city er hann kallaður, og áhugasamir geta skoðað myndir af þessum borgarhluta og áformunum þar á heimasíðu minni sigmundurdavid.is. Þetta er gríðarlega stór borgarhluti með skýjakljúfum sem minna kannski helst á Dúbaí. Gert er ráð fyrir að íbúar í þessu nýja hverfi, þessum nýja borgarhluta, verði á bilinu 250–400 þúsund, álíka og á Íslandi öllu, en íbúafjöldinn í þessu nýja hverfi jafngildir fjölgun íbúa í Lagos á aðeins sex til níu mánuðum. Á sex til níu mánuðum fjölgar íbúum borgarinnar það mikið að það nemur öllum væntanlegum íbúum þessa nýja stóra hverfis.

Ef við víkjum þá aðeins frá Nígeríu til að fá annan samanburð þá kannast kannski ekki margir Íslendingar við borgina Blantyre — ég veit ekki hvort ég beri þetta rétt fram, frú forseti — en við næstu aldamót er því spáð að íbúar þeirrar borgar verði orðnir 57 milljónir, margfalt fleiri en í nokkurri evrópskri borg, hvort sem það er nú eða þá, en þessi borg, Blantyre, er næststærsta borgin í Malaví. Malaví þekkja Íslendingar eflaust margir. Þar höfum við sinnt þróunarstarfi en höfuðborg landsins, Lílongve, verður enn stærri. Blantyre verður 57 milljóna manna borg en höfuðborgin Lílongve verður sem sagt enn stærri. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Enn hendir það mig að vera rétt að komast á skrið, komast af stað, setja hlutina í samhengi, og þá er tíminn útrunninn. Því bið ég yður að setja mig aftur á mælendaskrá.