152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:52]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar aðeins að halda áfram og gagnrýna þingmenn stjórnarflokkanna fyrir að taka ekki þátt í umræðunni en það má auðvitað vera að þetta sé hluti af pakkanum sem ríkisstjórnarflokkarnir semja um. Síðustu tvö þing átti Framsóknarflokkurinn að fá þetta mál sem hluta af sínum pakka en það gekk ekki eftir. Nú er þetta einhvern veginn orðið hluti af pakka Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs án þess að neitt hafi breyst efnislega í málinu á milli þinga. Ég er hreinlega að reyna að átta mig á því hvert eignarhaldið á málinu er nema ef vera skyldi að það væri bara kerfið sem væri einhvern veginn að reka þetta mál áfram. Miðað við athugasemdirnar sem hefur verið lýst hér frá Persónuvernd o.fl. — lítið er gert með athugasemdir, mjög ígrundaðar og ákveðnar, sem komu fram í byrjun árs 2000, ekkert hefur verið gert með þær rúmum tveimur árum síðar og tveimur framlagningum síðar — þá spyr maður: Hver er það sem keyrir þetta mál áfram? Það vill enginn verja það, enginn, nema bara þeir sem beinlínis geta ekki annað en mætt.

Það hafa þrír stjórnarliðar mætt í þessa umræðu samanlagt, í 1. og 2. umr. Það er ráðherrann og hann á erfitt um vik að mæta ekki, hann hélt eina ræðu. Hv. þm. Jódís Skúladóttir, framsögumaður nefndarálits meiri hlutans, hefur haldið tvær ræður og hv. þm. Birgir Þórarinsson hélt eina ræðu í fyrri umferð og fór í andsvör sem lýstu ekki beinlínis mikilli hugarró yfir efni og áhrifum frumvarpsins, svo að vægt sé til orða tekið. Hver er að keyra þetta áfram? Hæstv. núverandi ráðherra fékk þetta bara í fangið. Það hefur ekkert verið gert með málið síðan hæstv. ráðherra tók, fyrir nokkrum mánuðum, við hinu nýja ráðuneyti sem hann situr í. Er þetta eitthvert fullkomið kerfismál sem svona mikið er lagt undir að klára en kerfið, sem ætlast til þess hverju sinni að mótaðilinn standi sína plikt hvað form varðar, ætlar sér að komast upp með einhverja sýndarmennsku í tengslum við kostnaðarmat málsins? Ég eiginlega verð að hvetja ykkur, ágætu þingmenn í Sjálfstæðisflokknum, sem horfið á skjánum í skrifstofum ykkar, til að koma og fara yfir þetta með okkur sem hér erum. Það sama má segja um þingmenn Framsóknarflokksins. Það hefur enginn Framsóknarmaður komið í ræðu í þessu máli, hvorki við 1. umr. né við 2. umr. Þetta er flokkurinn sem mælti fyrir þessu máli, þeirra ráðherra, á síðasta og á þarsíðasta þingi en innvolsið í málinu virðist vera þeirrar gerðar að þingflokkur Framsóknarflokksins virðist vera algjörlega afhuga því. Enginn hefur tjáð sig um það. Hvernig getur þetta verið?

Haldnar hafa verið fjórar ræður samanlagt í 1. og 2. umr. um málið sem hér er rætt um. Þrjár af þessum fjórum ræðum hafa verið fluttar af fulltrúum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, ein af ráðherranum sem mælti fyrir málinu og tvær af framsögumanni meiri hluta í nefndinni. Ein ræða er frá Sjálfstæðisþingmanninum Birgi Þórarinssyni. Við erum að tala um eina ræðu samanlagt í máli þar sem verið er að gjörbreyta því er snýr að móttöku hælisleitenda í íslenska kerfinu, eina ræðu samanlagt frá þingmönnum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Ef maður væri í andsvari, ef slíkt væri mögulegt, myndi maður spyrja einhvern fyrirsvarsmanna þessara tveggja flokka hvort viðkomandi hefði einhverja skýringu á þessu. Þetta er ekki áhugaleysi, þetta er miklu frekar flótti frá málinu. Fólk þorir ekki að takast á við það að búið er að samþykkja eitthvað í einhverjum bjánaskap út úr þingflokki, og fyrst út úr ríkisstjórn, sem menn vilja fyrir alla muni ekki þurfa að (Forseti hringir.) lenda í að útskýra á seinni stigum vegna þess að málið gengur ekki upp eins og það er lagt fram.