152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:03]
Horfa

Erna Bjarnadóttir (M):

Frú forseti. Ég tók þátt í umræðum hér sem framsögumaður nefndarálits, mælti fyrir því í gær, og hafði uppi varnaðarorð um nokkur atriði frumvarpsins. Í fyrsta lagi langar mig aðeins — og ég nefndi þá í andsvari mínu þetta með vinnslu persónuupplýsinga. Ég hef raunverulegan áhuga á þessari gegndarlausu söfnun persónuupplýsinga um fólk í þessu landi, að ekki sé nokkur leið að gera nokkurn skapaðan hlut nema með rafrænum skilríkjum eða kennitölu, nema hvort tveggja sé. Ef ég má, með leyfi forseta, lesa aðeins upp úr greinargerð með frumvarpinu þá stendur hér:

„Mikilvægt er að kveðið sé skýrt á um heimild Fjölmenningarseturs til upplýsingaöflunar og miðlunar þannig að stofnunin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu, bæði hvað varðar aðstoð við flóttafólk en einnig til að geta veitt sveitarfélögum ráðgjöf og fræðslu. Sem dæmi um slíkar upplýsingar eru grunnupplýsingar um einstakling, þ.m.t. um menntun, fjölskylduhagi, fyrri atvinnuþátttöku og heilsufarsupplýsingar sem skipta máli varðandi þjónustuþörf.“

Til að tryggja að unnt sé að mæta þjónustuþörfum einstaklinganna þarf stofnunin jafnframt að geta unnið með viðkvæmar persónuupplýsingar og persónuupplýsingar sem geta talist viðkvæms eðlis, — er þetta ekki sami hluturinn, frú forseti? — m.a. upplýsingar um ástæður þess að einstaklingum er veitt vernd, um sálræn áföll, þjóðernisuppruna og heilsufar.

Ég staðnæmdist við þetta með sálræn áföll. Það er fjarri því, frú forseti, að ég sé eitthvað að hafa þetta í flimtingum. Það sem ég er einfaldlega að segja er: Er þetta ekki eitthvað sem er sameiginlegt öllum sem koma hingað í erindum sem þessum? Eru ekki meiri líkur á því að þetta eigi við um alla eða öll þau sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd eða koma á forsendum þessa frumvarps, að þau þurfi á meðferð við sálrænum áföllum að halda?

Það leiðir mig að næsta atriði. Jú, hér er talað fallegum orðum um að greina þjónustuþörf. Þá varð mér hugsað til þess að fjölmörg byggðarlög hringinn í kringum landið hafa tekið við flóttamönnum á undanförnum árum og gert vel, frú forseti. En miðað við framboð á þjónustu af þessu tagi á landsbyggðinni, hvernig eiga þessi sveitarfélög að geta sinnt þessu? Er það virkilega hugsunin með þessu að fólk sem kemur hingað til dvalar, m.a. á forsendum þessa frumvarps, muni einfaldlega hrúgast upp hérna í kringum höfuðborgarsvæðið? Er þetta í anda þess að dreifa álaginu eða stuðla að fjölbreytni í því hvar þetta fólk setur sig niður? Mér finnst eitthvað ekki ganga upp hérna og mér finnst nauðsynlegt að setja aðeins athyglina á þetta.

Enn og aftur varnaðarorð gagnvart gegndarlausri söfnun á persónuupplýsingum, ég tala nú ekki um viðkvæmum persónuupplýsingum. Þar að auki: Verða þetta, þegar upp verður staðið, réttar upplýsingar? Ég veit það ekki. Ég gæti náttúrlega sagst hafa hin og þessi heilsufarsvandamál, ef ég ætlaði að taka mér búsetu í öðru landi, sem engar læknaskýrslur væru síðan til um til að staðfesta. Það er eitt. Ég er ekki að bera nein óheilindi upp á neinn, ég er bara að benda á þetta.

Ég get ekki komið hingað upp öðruvísi en að þakka hv. þingmönnum Bergþóri Ólasyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að ausa svona úr viskubrunni sínum yfir okkur, þó að ég sé nú búin að vera með þeim félögum nokkra stund og hafi orðið margs vísari. Kannski ef annarhvor þeirra myndi vilja dýpka þekkingu mína enn frekar: Er það sú mynd sem þeir mála upp í umræðunni um þetta mál að hér sé að verða til einhvers konar síða í heildsölubæklingi þeirra sem taka að sér að flytja flóttafólk hættuför, eins og yfir Miðjarðarhafið? Mig langar bara að fá það betur fram.

Frú forseti. Í andsvörum í gær tók ég líka til máls um kostnað við frumvarpið. Með leyfi forseta vil ég ítreka þær áhyggjur mínar að þetta sé vanáætlað. Mér finnst það mikilvægt að mál sem koma fyrir hið háa Alþingi fái vandaða kostnaðargreiningu. Þó að ég sé nýgræðingur á þinginu og ekki með langa reynslu hef ég lengi fylgst með þingstörfum, fylgst með málum sem koma fram, gefið umsagnir og allt þetta. Mér hefur stundum virst vanta upp á þetta. Það finnst mér eiga við í þessu máli, að það sé tilefni til að ætla að kostnaður verði meiri en frumvarpið gerir ráð fyrir.

Frú forseti. Ég er nú vön að vera stuttorð. Ég sé að ég á nóg eftir af ræðutímanum en ég fæ þá bara frekar að koma aftur ef ég finn þörf til þess.