152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég var byrjaður að fara yfir innganginn að stefnu danskra jafnaðarmanna í málefnum hælisleitenda, lausn þeirra á því stóra viðfangsefni sem ég hef farið yfir hér í fyrri ræðum. Það sem ég gerði var annars vegar að þýða þennan inngang á íslensku, þingmálið, og svo að setja orðið Ísland inn þar sem talað er um Danmörku í textanum, svona til þess að gera þetta aðgengilegra í íslenska stjórnmálaumræðu. Ég man nú ekki alveg hvert ég var kominn í lestrinum. Ég held að það sé einfaldast að ég byrji aftur á byrjuninni en byrji þá strax, svo að ég nái vonandi að komast í gegnum innganginn á þeim stutta tíma sem mér er úthlutaður í þessari ræðu. Undir fyrirsögninni Meginstefnan segir:

Við þurfum sjálf að ráða því hversu mörgum innflytjendum við tökum á móti. Það getum við ekki nú. Það þarf að setja hámark á fjölda hælisleitenda og koma um leið á sanngjarnara og mannúðlegra hælisleitendakerfi. Það ætti ekki að vera hægt að leita skyndihælis á Íslandi. Við munum þó áfram taka á móti kvótaflóttamönnum. Ísland er lítið land sem hefur tekist að byggja upp betra velferðarsamfélag en víðast hvar annars staðar. Á Íslandi er lögð áhersla á jafnrétti en um leið að hver og einn leggi sitt af mörkum. Gagnkvæmt traust er forsenda þeirrar samheldni og öryggistilfinningar sem einkennt hefur landið. Þótt útlendingar séu velkomnir til Íslands skiptir sköpum að þeir verði hluti af samfélaginu. Það gerist ekki öðruvísi en að þeir hafi vilja til þess sjálfir. Þegar fólk flytur til landsins án þess að aðlagast samfélaginu dregur það úr samheldni.

Núverandi innflytjenda- og hælisstefna skapar ekki aðeins vandamál fyrir Ísland, hún ýtir líka undir ofbeldisfullt og lífshættulegt óréttlæti þar sem óprúttnir mansalar hagnast gríðarlega á ógæfu annarra. Á undanförnum þremur árum hafa meira en 10.000 manns, þar með talið börn, drukknað á Miðjarðarhafi við að reyna að komast til Evrópu. Mun fleiri verða fyrir ofbeldi og misnotkun á leiðinni. Konur eru neyddar í vændi, fjölskyldur í heimalandinu eru kúgaðar og fólk sett í þrælahald. Um leið hafa Vesturlönd vanrækt þá flóttamenn sem eru í mestri neyð. Nærumhverfinu hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Undanfarin fjögur ár hafa Evrópulönd varið umtalsvert meira fjármagni en áður í úrvinnslu hælisumsókna fyrir þá sem hafa komist til landa álfunnar, þótt stór hluti þeirra reynist vera förufólk sem á ekki rétt á hæli í Evrópu. Með núverandi kerfi erum við að vanrækja skyldur okkar gagnvart öðru fólki. — Þetta er ákveðin lykilsetning í þessari yfirlýsingu danskra jafnaðarmanna, frú forseti. — Með núverandi kerfi erum við að vanrækja skyldur okkar gagnvart öðru fólki.

Við höfum yfirgripsmikla áætlun, þar sem er litið bæði til hagsmuna Íslands og umheimsins, áætlun sem stenst alþjóðasamþykktir að fullu, áætlun sem getur orðið öðrum Evrópulöndum fyrirmynd, ekki hvað síst vegna þess að hún byggist á rétti hvers lands til að ákveða hversu mörgum innflytjendum það tekur við. Þar er gert ráð fyrir að hvert land taki aðeins við þeim fjölda flóttamanna sem hægt er að aðlaga hverju samfélagi fyrir sig. Við sem samfélag höfum trúað því of lengi að ef aðeins þeir sem koma hingað læri tungumálið og fái vinnu þá deili þeir líka gildum okkar. Sem betur fer gera það margir. En því miður eru líka margir sem aðhyllast hugmyndafræði sem er andsnúin lýðræði okkar og samfélagslegum gildum. Áætlunin felur í sér leið út úr núverandi ástandi, ástandi þar sem hver aðgerð í einu landi leiðir til aukins aðhalds í nágrannalöndunum og lönd keppast um að vera minnst aðlaðandi staðurinn fyrir flóttamenn að leita skjóls. Við erum tilbúin til að vinna með öðrum löndum að bættu kerfi. Meðferð hælisumsókna ætti eingöngu að fara fram í öruggum löndum utan Evrópu og innstreymi í álfuna að taka mið af áætlun Sameinuðu þjóðanna um kvótaflóttamenn. (Forseti hringir.)

Þetta var inngangurinn, frú forseti. (Forseti hringir.) Næst mun ég drepa á nokkrum meginatriðum stefnunnar sjálfrar og bið yður því að skrá mig aftur á mælendaskrá.