152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég tók smáútúrdúr í tengslum við ræðu hv. þm. Ernu Bjarnadóttur en í þarsíðustu ræðu minni var ég að reyna að átta mig á eignarhaldi þessa máls, hvað það væri sem keyrði áfram þetta kerfismál sem hér um bil enginn þingmaður stjórnarflokkanna vill tengja sig við og ráðherrann allra manna síst, að því er virðist. Í þessu samhengi held ég að við þurfum að reyna að átta okkur á heildarmyndinni og því hvernig flokkarnir í ríkisstjórninni vinna saman eða ekki, jafnólíkir og þeir eru hvað stefnu og afstöðu varðar.

Ástandið í Úkraínu vegna innrásar Rússa hefur dregið upp á yfirborðið þá stöðu sem verið hefur viðvarandi um langa hríð hvað málefni hælisleitenda varðar og þann ólestur sem kerfið er komið í hér á landi og raunar um Evrópu alla. Fjármálaráðherra, til upprifjunar, svaraði fyrirspurn formanns Miðflokksins, hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrir stuttu síðan þannig að það væri óásættanlegt að á Íslandi væru enn nokkur hundruð manns sem hefðu þegar fengið efnislega meðferð á umsókn sinni um vernd sem endað hefði með neikvæðu svari. Fólk sem ekki á rétt á vernd á Íslandi, þessi nokkur hundruð manns, neitaði að yfirgefa landið og ekki var hægt að vísa því úr landi með aðstoð lögreglu því að þau neituðu að fara í sýnatöku vegna Covid-19 sem á þeim tíma var forsenda þess að hægt væri að senda viðkomandi til þess Evrópuríkis þar sem hann var þegar kominn með alþjóðlega vernd. Ég hef nú ekki skoðað hvort þessi Covid-19 regla eigi enn við en fjármálaráðherra upplýsti þarna að bara það að halda þessum fjölda fólks uppi við þessar aðstæður kostaði ríkissjóð rúman milljarð á ári, meira en 1.000 milljónir vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hafði verið hafnað og áttu ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi.

En ef við skoðum síðan hvað ríkisstjórnin hefur gert í þessu, svona til að átta okkur á hvernig hljóð og mynd fer saman í þessum efnum hjá þessum ólíku flokkum, þá hefur dómsmálaráðherra nú boðað þriðju atrennu að lagabreytingum sem breytir regluverkinu þannig að þeir sem þegar eru komnir með alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki ríki fái ekki líka vernd á Íslandi, skuli hverfa aftur til þess ríkis þar sem þeir eiga verndina. Enn hefur ekki verið mælt fyrir því máli, það er á dagskrá núna og það hlýtur auðvitað að vekja undrun að þetta mál Sjálfstæðisflokksins, sem hefur verið mælt nokkrum sinnum fyrir, skuli vera undirorpið þeim örlögum að fást ekki rætt á meðan þetta kerfisfrumvarp virðist sífellt vera í forgangi. Sama hvort það er ráðherra Framsóknarflokksins eða ráðherrar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboð, alltaf skal það koma fyrst fram, jafnvel þó að lógísk röð hlutanna segði manni að eðlilegt væri að tillaga um þingsályktun sem var dreift hér 1. apríl sl., um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022–2025, væri fremst í röðinni. Enn hefur ekki verið mælt fyrir máli hæstv. dómsmálaráðherra og leiða verður líkur að því að ósætti á stjórnarheimilinu skýri hina síðbúnu umræðu því að málið var lagt fram fyrir nokkru og hefur verið á dagskrá í einhverja daga en hæstv. dómsmálaráðherra fær það ekki rætt.

Á meðan ráðherrar Sjálfstæðisflokksins boða þriðju atlögu að breytingu á útlendingalögunum til að gera kerfið skilvirkara og mæta augljósum ágöllum eins og þeim sem var lýst hér á undan býður ráðherra Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ekki boðanna og leggur fram frumvarp sem er til þess fallið að fjölga umsóknum um alþjóðlega vernd hér á landi. Það er málið sem við ræðum hér í dag og í gær. Það með hve mismunandi hætti framganga stjórnarflokkanna er hér í þinginu bendir til þess að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi með einum eða öðrum hætti bara gefist upp, ákveðið að kalla þetta gott. Sjálfstraustsleysið er algjört. Það er ekki einu sinni reynt að koma eigin málum (Forseti hringir.) til umræðu hér í þinginu, málum sem mögulega gætu gert gagn (Forseti hringir.) varðandi það atriði er snýr að miklum flóttamannafjölda frá Úkraínu sem vonandi er tímabundinn.

Virðulegur forseti. Ég óska eftir að vera settur aftur á mælendaskrá.