152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

listamannalaun.

408. mál
[12:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég segi já með mikilli gleði út af þessu máli. Þetta er í þriðja sinn sem Alþingi kemur til móts við það listafólk sem hefur orðið sérstaklega illa úti í Covid og kórónufaraldrinum, sérstaklega sviðslistafólk og tónlistarfólk. Ég vil hins vegar hvetja hæstv. ráðherra til að koma fram með heildarendurskoðun á lögum um listamannalaun, ekki síst með tilliti til þess að Listaháskólinn er búinn að fjölga gríðarlega nemendum og útskriftarnemendum á síðustu árum og misserum. Listafólkinu okkar er blessunarlega að fjölga, það þarf að byggja enn frekar grunn fyrir þann hóp og þess vegna vil ég hvetja hæstv. ráðherra til að koma með heildarendurskoðun á lögum um listamannalaun sem fyrst inn í þingið eða á nýju þingi. Þetta er gríðarlegt hagsmunamál, ekki bara fyrir nemendur Listaháskólans og listafólk almennt heldur samfélagið í heild. Um leið og ég segi já þá vil ég hvetja okkur áfram til að stíga stærri skref í þessa veru.