152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

sorgarleyfi.

593. mál
[14:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til þess að þakka fyrir þetta góða mál eins og aðrir hv. þingmenn hafa gert. Ég tel þetta vera mál sem við öll hér getum virkilega sameinast um og er orðið tímabært. Viðhorf eru breytt gagnvart svona málum í samfélaginu og gott að við Íslendingar getum verið þar í forystu og breytt löggjöf okkar í þessa átt, að mæta því fólki sem verður fyrir missi barna sinna, andvanafæðingu eða fósturláti. Ég tel þetta vera mikla réttarbót handa foreldrum sem hafa misst barn og það sé rétt að opinberir aðilar veiti allan stuðning sem hægt er að veita þó að aldrei sé hægt að bæta þann missi sem þarna verður. En að styrkja fólk í gegnum þessa erfiðleika með þessum hætti og að hægt sé að veita sorgarleyfi skiptir mjög miklu máli fyrir þá einstaklinga sem eiga í hlut og að það sé viðurkennt að einstaklingar þurfi að takast á við barnsmissi og það sé tryggt í okkar samfélagi að fólk geti gert það án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni og stöðu á vinnumarkaði. Það er stórmál að fara aftur að sinna vinnu eftir slíkt áfall eða taka sér launalaust frí með áhyggjur af afkomu sinni meðfram þeirri miklu sorg sem fylgir slíkum missi. Það að frumvarpið veiti hverju foreldri sex mánaða sjálfstæðan rétt til leyfistöku þykir mér líka vera gott og síðan verður það örugglega skoðað í framhaldinu, alveg eins og það að útvíkka frumvarpið hugsanlega með því að horfa til þess þegar maki missir maka frá ungum börnum, sem mér finnst alveg rétt að skoða í þessu samhengi. Það kemur fram í frumvarpinu að fólk geti ráðstafað þessu sorgarleyfi eftir því sem hentar, með hlutastarfi eða skipt því niður eins og það best telur henta sér, og ég tel að sá sveigjanleiki sé mjög mikilvægur í ljósi þess að sorgin er persónuleg og hvert og eitt okkar tekst á við hana á sinn hátt. Í þessu frumvarpi er hugtakið foreldri útvíkkað til að innibera öll þau sem þar falla undir og það er til að mæta nútímaviðhorfum gagnvart þessum málum sem ég tel líka vera mikilvægt.

Ég vil bara, virðulegur forseti, lýsa sérstakri ánægju með þessa löggjöf, hún er í takt við breytta tíma, opnara samfélag og samfélag sem við viljum byggja undir og styrkja með öllum ráðum sem snýr að því að taka utan um þá einstaklinga sem glíma við barnsmissi og sorg. Ég tel að með aukinni umræðu aukist skilningur og umburðarlyndi gagnvart fólki. Eins og var kannski hér áður fyrr þá áttir þú að takast á við sorgina með því að harka hlutina af þér, en það er ekki í dag. Fólk á að fá að hafa tíma til að vinna með sínar tilfinningar í kjölfarið svo það geti reynt að byggja sig upp að nýju og takast á við þann veruleika sem blasir við. Við erum hér með mál sem ég treysti og trúi að verði samþykkt á Alþingi í vor.