152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

sorgarleyfi.

593. mál
[14:43]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ég verð að fá að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í þetta. Mig langar að nefna það fyrst að 22 vikna viðmiðið er einfaldlega Evrópuviðmið, ef ég man þetta rétt. Það er það sama og er í lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Þetta kemur algerlega óbreytt upp úr þeirri löggjöf inn í þessa vegna þess að þetta er talið eiga betur við hérna. Getur hv. þingmaður útskýrt betur fyrir mér hvað það er sem hann er að leggja til? Í mínum huga er fóstureyðing ekki það sama og fósturlát en ég get tekið undir með hv. þingmanni að það fylgja því tilfinningalega erfiðir tímar þegar kona þarf að fara í fóstureyðingu rétt eins og þegar fósturlát verður. En mér þætti vænt um ef hv. þingmaður vildi útskýra aðeins betur hvað hann er að leggja til.