152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk.

[15:41]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur það markmið fram að tryggja skuli eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um er að ræða stuðningsþjónustu eða heilbrigðisþjónustu, á forsendum þess sjálfs, á réttu þjónustustigi og á viðunandi tíma. Ákveðið var að fara af stað með vinnu við heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk, svipað og gert var í málefnum barna á síðasta kjörtímabili. Það verkefni tókst afar vel þó að enn sé eitthvað eftir en það er nauðsynlegt og skynsamlegt að nýta þann lærdóm og þá reynslu sem myndaðist í þeirri vinnu. Auðvelda þarf eldra fólki að búa sem lengst heima með öllum þeim stuðningi og allri þeirri þjónustu sem þarf til, þjónustu sem eldra fólkið okkar getur treyst. Sporna verður gegn félagslegri einangrun og einmanaleika eldra fólks með áherslu á heilsueflandi aðgerðir. Nauðsyn á fjölbreyttari búsetu- og þjónustuleiðum er einnig aðkallandi. Þar á ég m.a. við sveigjanlega dagþjálfun þar sem tækni og nýsköpun bætir þjónustuna. Hér er um að ræða þverfaglegt samstarf milli félags- og heilbrigðisþjónustu, málefni sem er okkur afar brýnt, en mikilvægt er að tryggja fullnægjandi þjónustu fyrir þennan sístækkandi þjóðfélagshóp sem er liður í því að fjárfesta í fólki. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig þeirri vinnu miðar og hver staðan sé á vinnunni við heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk.