152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

heildarúttekt heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma.

304. mál
[15:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jódís Skúladóttir) (Vg):

Herra forseti. Staða sjúklinga með vímuefnavanda hefur löngum verið til umræðu og af einhverjum ástæðum á allt öðrum nótum en staða annarra sjúklinga innan heilbrigðiskerfisins. Lengi hefur verið kallað eftir stefnumótun í málaflokknum og er brýnt að horfa til framtíðar. Hér á landi er áfengis- og vímuefnameðferð að stórum hluta veitt af frjálsum félagasamtökum en þjónustan er að stærstum hluta fjármögnuð af hinu opinbera.

Fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, setti fyrir ári af stað vinnu við heildarúttekt á þjónustuferlum, hugmyndafræði, innihaldi og gæðum heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma. Sú vinna er gríðarlega mikilvæg, ekki síst í ljósi þeirrar viðkvæmu stöðu sem þessi sjúklingahópur er í gagnvart þjónustuveitanda. Þar er sérstaklega mikilvægt að staða kvenna, ungmenna, fólks af erlendum uppruna, hinsegin fólks og annarra viðkvæmra hópa sé greind og sérstök stefnumótun eigi sér stað út frá ólíkum þörfum sjúklingahópanna. Ítrekað hafa komið upp alvarleg mál innan hins íslenska meðferðarkerfis sem snúa að öryggi sjúklinga sem og meðferð opinbers fjár o.fl. Mikilvægt er að öryggi sjúklinga sé tryggt, að þjónustan sé ávallt byggð á nýjustu rannsóknum þar til bærra úttektaraðila og að fjármagni hins opinbera sé ráðstafað með þeim hætti að sem best og öruggust þjónusta sé veitt hverju sinni.

Mig langar því að beina eftirfarandi spurningum til heilbrigðisráðherra um heildarúttekt heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma:

1. Hvað líður heildarúttekt heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma sem sett var af stað hinn 11. maí 2021?

2. Telur ráðherra að framboð meðferðarúrræða sé nægilega fjölbreytt?

3. Hver er afstaða ráðherra gagnvart því að heilbrigðisþjónusta sé rekin af frjálsum félagasamtökum?

4. Hver er stefna ráðherra í málaflokknum?