152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

heildarúttekt heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma.

304. mál
[16:01]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttir fyrir að hreyfa við þessu máli og hæstv. ráðherra fyrir svarið áðan. Þetta er mér mikið hjartans mál og hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, ekki síst vegna þess að vandinn og kostnaðurinn er svo rosalega vanmetinn og falinn víða í samfélaginu. Ég er þeirrar skoðunar, svo að ég hreyfi við einu af því sem verið var að spyrja um, að það sé mjög gott að frjáls félagasamtök og aðrir en ríki eða sveitarfélög reki meðferðarúrræði. Hins vegar verður samningsgrunnurinn og eftirlitið af hálfu ríkisins, og kröfurnar sem gerðar eru, að vera algjörlega geirneglt og fylgt mjög vel eftir. Ég hef líka stundum nefnt að þegar fólk er loks tilbúið til að fara í meðferð þá er það kannski bara í skamman tíma og það er ekkert endilega tilbúið að fara í ákveðið úrræði út af einhverjum innbyggðum fordómum. Þess vegna getur það kannski verið ráð að fjölga meðferðarúrræðum og hafa þau fjölbreyttari. Þá næðum við kannski til fleiri á þeim stutta tíma sem glugginn er opinn, þ.e. þegar fólk vill sækja sér hjálp.