152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

heildarúttekt heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma.

304. mál
[16:10]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að taka undir ákall um það, þegar hugað er að mismunandi meðferðarformum og mismunandi þörfum hópa, að ekki verði komist hjá því að horfa til hugmyndafræði hvað það varðar hvort gerð er krafa um að fólk fari strax í meðferð og þurrki sig upp eða hvort það eru einhver millistig, hvort sú hugmyndafræði verður viðurkennd, sem hefur á undanförnum árum sífellt farið vaxandi, að það eigi að vera millistig og ekki eigi að refsa fólki til hlýðni í þessum efnum, að það sé mjög vandmeðfarið og í raun ekki góð aðferð. Ég vil bara segja í þessu samhengi að ég sakna svolítið heildstæðrar stefnumótunar af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Hér eru að störfum ágætir hópar, þeim er ætlað að skoða þetta frá mismunandi vinklum, sem ég ber ágætt traust til. En mér finnst einhvern veginn að með þessu sé aðeins verið að ýta þessum bolta á undan sér út af pólitískri tregðu til að taka þetta almennilega í fangið.