152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

HPV-bólusetning óháð kyni.

329. mál
[16:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Það er magnað hvað vísindin geta, og læknavísindin kannski ekki síst. Hvern hefði grunað að hægt væri að finna bóluefni sem kæmi í veg fyrir krabbamein? En það er akkúrat málið með HPV-bólusetninguna sem var tekin upp hér á landi fyrir 11 árum. Sú bólusetning kemur í veg fyrir veiruna sem veldur leghálskrabbameini sem er fjórða algengasta krabbamein hjá konum á heimsvísu.

Ísland tók upp bólusetningu, það kerfi að bólusetja allar 12 ára stúlkur árið 2011, frábært, jákvætt og skynsamlegt skref en því miður vorum við eftirbátar. Svíþjóð byrjaði 2007, Danmörk og Noregur 2009, Ísland 2011. Við hefðum getað gert betur. Fyrir utan allar þjáningarnar sem fylgja því að greinast með krabbamein þá meikar þetta bara þjóðhagslegt sens. Kostnaður þjóðfélagsins við þessi veikindi er svo gríðarlegur. Þess vegna kom mér dálítið á óvart þegar ég fékk á 150. þingi svar frá öðrum heilbrigðisráðherra þar sem ég spurði hvort hún sæi ástæðu til að efla HPV-bólusetningu þannig að hún næði til allra kynja. Hún sagði nei. Ég velti fyrir mér hvort það hafi verið vegna þess að ráðuneytið hafi bara litið á bólusetningarhlutfallið hjá stúlkunum og talið það vera nógu hátt til að það tryggði hjarðónæmi en þá er það með augun lokuð fyrir því að HPV veldur ekki bara leghálskrabbameini. Það veldur líka krabbameini í skapabörmum, leggöngum, endaþarmi, munnkoki og getnaðarlim.

Þess vegna spyr ég núverandi hæstv. ráðherra hvort hann telji ástæðu til að efla bólusetninguna þannig að hún nái til einstaklinga af öllum kynjum, vegna þess að það hafa ekki öll bara mök við fólk af öðru kyni og það para sig ekki öll bara við fólk sem hefur notið bólusetningaráætlunar íslenskra stjórnvalda, og aftur er Ísland eftirbátur Norðurlandanna. Noregur byrjaði að gera þetta 2018, Danmörk 2019, Svíþjóð og Finnland 2020.

Svo langar mig að spyrja ráðherrann hvort hann telji ástæðu til að skipta út því bóluefni sem hefur verið notað í dag sem veitir vörn fyrir tveimur gerðum HPV-veiru, þeim tveimur gerðum sem ná yfir 72% sýkinga, og taka upp bóluefni sem nær yfir níu gerðir, sem dekkar þá restina, því sem næst. Í dag eru foreldrar farnir að kaupa sig fram hjá. (Forseti hringir.) Foreldrar leggja í þá fjárfestingu í þágu heilbrigðis barnanna sinna að borga 26.408 kr. fyrir skammtinn af betra bóluefni og þurfa tvo til þrjá skammta til að ná fullri bólusetningu. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér, hæstv. ráðherra, ef við hefðum verið með bóluefni gegn Covid sem næði yfir alfa- og delta-afbrigðin, ekki ómíkron, hefði okkur nokkurn tímann dottið í hug að bjóða upp á það, en ekki bóluefni sem næði yfir allt? (Forseti hringir.) Ég held nefnilega ekki.

(Forseti (OH): Ég vil minna hv. þingmann á að virða ræðutímann.)