152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

HPV-bólusetning óháð kyni.

329. mál
[16:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir fyrirspurn hans um HPV-bólusetningar. Þær hafa, eins og hv. þingmaður kom inn á, haft mikil áhrif frá því að byrjað var að bjóða stúlkum upp á þær 2010 enda veita þær mjög öfluga vörn gegn þekktum meinum sem orsakast af HPV-veiru. Hv. þingmaður beindi sjónum sínum að tveimur atriðum.

Í fyrsta lagi spyr hv. þingmaður hvort ástæða sé til að efla HPV-bólusetningu svo að hún nái til einstaklinga af öllum kynjum. Nú er það svo að flestir einstaklingar smitast af a.m.k. einni HPV-veiru á ævinni eftir kynþroska. Meiri hluti sýkinga gengur yfir en stundum getur sýking orðið viðvarandi og getur valdið sjúkdómi. Algengasta krabbameinið sem orsakast af HPV-veiru er leghálskrabbamein og eru til nokkrar veirutýpur sem orsaka slík krabbamein. Einnig þekkist að HPV-veirur valdi krabbameinum á öðrum stöðum, t.d. á höfuð- og hálssvæði, en það er algengara meðal karla. Kynjaskipting heildarfjölda HPV-tengdra krabbameina hérlendis er á þann veg að tveir þriðju þeirra sem greinast eru kvenkyns og einn þriðji er karlkyns. Hins vegar er það svo að líklegt er að þetta hlutfall muni snúast við þar sem stúlkur eru nú bólusettar gegn veirunni en ekki drengir. Þátttaka í HPV-bólusetningu meðal stúlkna er góð hér á landi og hefur hjarðáhrif. Það er þó svo að ávinningur almennra bólusetninga, óháð kyni, er ótvírætt meiri en ávinningurinn sem felst í því að bólusetja stúlkur eingöngu. Það er rétt sem hv. þingmaður fór hér yfir að síðan bólusetningar hófust hér á landi hafa hin Norðurlöndin, Danmörk, Svíþjóð, Noregur og Finnland, sem við erum svo gjörn á að bera okkur saman við, tekið upp bólusetningar óháð kyni. Það er því mitt mat að tilefni sé til að greina það og skoða vel að bjóða öllum kynjum upp á slíka bólusetningu.

Þá að seinni spurningu hv. þingmanns sem lýtur að því hvort það komi til álita að skipta núverandi bóluefni gegn HPV, Cervarix-bóluefninu, út fyrir bóluefni sem veitir víðtækari vörn. Líkt og áður hefur komið fram eru til nokkrar týpur af HPV-veirum sem valda krabbameinum. Cervarix-bóluefnið veitir öfluga vörn gegn algengustu týpum og nú er ég hér með númeraðar týpur en ég er ekki mjög fær í að greina það, en númerin er ég hér með á blaði, 16 og 18, ef það hringir einhverjum bjöllum, og veitir einnig vörn gegn þremur öðrum týpum á grundvelli krossvirkni sem eru númer 31, 33 og 45. Það er til annað bóluefni, Gardasil 9, sem veitir sambærilega vörn og Cervarix gegn algengustu týpunum, þessum sem eru númeraðar 16 og 18, en trúlega öflugri vörn gegn týpum 31, 33 og 45 og ég hygg að það sé það sem hv. þingmaður var að vísa til hér í sinni ræðu. Auk þess veitir þetta bóluefni vörn gegn fleiri týpum sem þó eru sjaldgæfari.

Eins og málum er háttað hjá okkur er það hlutverk sóttvarnalæknis að fara í útboð og gera samninga um bóluefni. Samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnalækni er litið til nokkurra atriða við slík útboð, m.a. til verðs viðkomandi bóluefnis. Gardasil 9 er töluvert dýrara bóluefni en Cervarix. Þá lítur sóttvarnalæknir einnig til virkni viðkomandi bóluefnis. Ég hygg nú að það sé afar skynsamlegt að meta þetta, vegna þess að ég geri ráð fyrir því að þegar við komum í veg fyrir sýkingar af því tagi sem við höfum verið að ræða hér séum við tiltölulega fljót að vinna upp allan ávinning sem snýr að verði. Ég held að það blasi bara við. Aftur á móti mætti fara í kostnaðarábatagreiningu þar sem hægt væri að bera saman kostnað ódýrara bóluefnis í samanburði við dýrara bóluefni og ætlaðan ávinning þess að kaupa frekar dýrara bóluefni. Ég held að það þurfi alltaf að framkalla slíkan útreikning en ég held að það sé nokkuð einsýnt að það er alltaf hagkvæmara að koma í veg fyrir svona alvarlegar sýkingar af þessu tagi. Eins og er liggur ekki fyrir greining á ávinningi Gardasil 9 umfram Cervarix en það væri æskilegt að gera slíka greiningu sem væri framkvæmd af sóttvarnalækni. Slík greining gæti svo þjónað því hlutverki að vera grundvöllur næsta útboðs sem sóttvarnalæknir fer í sem er á haustmánuðum. (Forseti hringir.) Ég segi það bara hér og nú að ég mun taka þetta mál upp beint við sóttvarnalækni áður en hann lýkur störfum.