152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

HPV-bólusetning óháð kyni.

329. mál
[16:26]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Mér finnst þetta mikilvæg spurning sem var borin hér upp og ég hygg að það sé æskilegt að bólusetja óháð kyni fyrir HPV-veiru og ég ætla bara að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það sem mig langaði að nefna í þessari umræðu og vísa til hæstv. ráðherra er að meðan við erum með þá framkvæmd að bólusetja stúlkur einvörðungu þá er mjög mikilvægt að ná til einstaklinga sem hafa breytt kynskráningu sinni og að þeir einstaklingar falli ekki milli laga þegar kemur að boðun í bólusetningu. Það sama gildir í rauninni um aðra þjónustu sem snýr að kynheilsu og ég vil sérstaklega nefna leghálsskoðanir sem dæmi. Þar held ég að stjórnvöld þurfi að vera meðvituð um að það er ekki víst að einstaklingur (Forseti hringir.) sem hefur breytt kynskráningu sinni fari í það sem er kannski fyrir öðrum rútínubundin athugun. Þannig að ég vil beina því til hæstv. ráðherra að koma því inn í kerfið að við náum til þessa hóps, en þakka annars fyrir fyrirspurnina og svör.