152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

HPV-bólusetning óháð kyni.

329. mál
[16:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin sem ég held að séu eins nálægt því og ráðherrar komast í að segja já í þessum stól í fyrirspurnum. Hann sér tilefni til að skoða og greina hvort sé skynsamlegt að útvíkka HPV-bólusetningu þannig að hún nái til einstaklinga af öllum kynjum og afar skynsamlegt að meta ábata af því að skipta um bóluefni fyrir annað sem virkar á fleiri tegundir HPV-sýkinga. Ég ætla að leyfa mér að túlka þetta sem já, af því að ég held að þegar sóttvarnalæknir leggist yfir tölurnar, leggist yfir þróunina í öðrum löndum, skoði ábendingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, skoði áskorun Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, þá beri allt að sama brunni. Við erum að fara að stíga þetta skref. Við þurfum að gera það vegna þess, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að núverandi bóluefni nær til afbrigða 16 og 18 sem eru ábyrg fyrir 72% af leghálskrabbameini hér á landi. Gardasil 9 nær hins vegar yfir 16, 18, 31, 33, 45, 52 og 58 sem valda hinum 28%. Mér finnst eiginlega varla skipta máli einu sinni hversu margir einstaklingar eru á bak við þessi 28%. Ég held að það sé alltaf hægt að reikna sig upp í heilsuhagfræðilegan ábata af því að koma í veg fyrir þau krabbamein. Svo þyrftum við kannski einhvern tímann við tækifæri að ræða undirliggjandi vanda í þessum málum vegna þess að HPV smitast við kynmök og þá er ákveðinn vandi að það sé eins og þjóðarsport á Íslandi að nota ekki smokk, hvort við þyrftum kannski að fara að spýta aðeins í lófana varðandi þau mál.