152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

HPV-bólusetning óháð kyni.

329. mál
[16:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir til hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar fyrir að taka þetta mál hér upp. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir kom jafnframt hingað upp og ég svara því nú bara einfalt að ég held að við verðum að horfa til þessarar þróunar hjá nágrannaþjóðum okkar um að þetta nái til allra kynja eins og kom fram í ræðu hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar. Þátttaka hefur hingað til verið ágæt eins og almennt er í bólusetningum á Íslandi. Það eru 92–95% heimtur fyrir fyrri skammt, síðastliðin fimm ár er tölfræði til um það, og tíðni þess að hún sé formlega afþökkuð svipuð og við aðrar skólabólusetningar hér á landi, eða 2–3,6%. Þess vegna er talið að þetta hafi hér, hjá þeim hópi sem þetta hefur náð til, haft góð áhrif og komið fram hjarðáhrif og dregið úr sýkingum.

Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kemur inn á heilsuhagfræðilegan ábata. Mér sýnist af þeirri tölfræði sem ég hef þó náð að tína fram, hjá sérfræðingum í ráðuneytinu, að við þurfum að horfa til þeirrar tölfræði sem er til hjá þeim löndum sem fóru af stað á undan okkur, af því að við höfum líka verið, eins og hefur komið fram, að bjóða þetta bara afmörkuðum hópi eftir kyni. Þetta er brýnt mál sem við þurfum að taka betur utan um. Ég þakka þessa umræðu, hæstv. forseti.