152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

aukin nýting lífræns úrgangs til áburðar.

492. mál
[17:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. matvælaráðherra Svandísi Svavarsdóttur fyrir að koma hér og svara fyrirspurn minni um aukna notkun lífræns efnis til áburðargjafar; seyra, úrgangur, soð og skólp, mykja, svartvatn, moð, molta og sauðatað. Telur ráðherra mögulegt að auka notkun þessa lífræna efnis og annars sem til fellur sem úrgangur innan lands til áburðar á land, svo sem við matvælaframleiðslu, landgræðslu eða skógrækt? Ef svo er, hvernig hyggst ráðherra beita sér fyrir því? Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að nýta alla þá möguleika sem við höfum til að skapa verðmæti úr lífrænum úrgangi. Þetta er falinn fjársjóður. Áburðarverð er nú í sögulegu hámarki og hækkar enn. Lífrænan úrgang er skynsamlegt að nýta í meira mæli til áburðar, ekki bara til þess að koma til móts við hækkun á áburðarverði heldur einnig og ekki síður til að auka sjálfbærni, ná markmiðum hringrásarhagkerfisins og settum loftslagsmarkmiðum.

Hæstv. ráðherra hefur í skriflegu svari bent á nýja skýrslu um greiningu á magni lífrænna áburðarefna á Íslandi og tækifæri til aukinnar nýtingar. Undirtitill skýrslunnar er „Sjálfbær áburðarframleiðsla – heildstæð nálgun á hringrásarhagkerfið“. Skýrslan var unnin af starfsmönnum Matís og Landgræðsluna og þar eru margar mikilvægar staðreyndir að finna. Samkvæmt skýrslunni fellur til töluvert magn af lífrænum úrgangi hérlendis á hverju ári eða varlega áætlað 38.000 tonn. Búfjáráburður úr hefðbundnum búskap er að mestu nýttur sem áburður á tún bænda og til landgræðslu bænda. Notkun lífrænna efna til landgræðslu hefur aukist hratt undanfarin ár og sexfaldaðist milli áranna 2015 og 2021. Heildarmagn af lífrænum áburði sem notaður var í landgræðslu er um 8.000 tonn á árinu 2021. Mest hefur aukningin orðið í nýtingu á hænsnaskít en einnig heyrúllum í ýmis verkefni, svo sem til að græða upp rofabörð. Á þurrari hlutum landsins getur það einmitt breytt miklu að nota lífrænt efni sem bindur raka við uppgræðslu. Það sáum við vel á þurru sumri eins og í fyrra á Norður- og Austurlandi þar sem mjög mikilvægt er að halda raka í uppgræðslu. Þá hefur nýting seyru aukist hröðum skrefum og voru 870 tonn nýtt til landgræðslu 2021. Lífrænn úrgangur sem ekki nýtist annaðhvort í landgræðslu eða til ræktunar hefur farið til urðunar og varlega áætlað eru það um 30.000 tonn. Aðeins lítill hluti af úrgangi og skolpi er nýttur en afgangurinn fer um fráveitukerfin og endar í hafinu. Eitthvað hefur þó farið í eldsneytisframleiðslu. (Forseti hringir.) Þetta er allt áhugavert að rýna betur.