152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[19:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á þessu frumvarpi og vil spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í tvennt sem hann fjallaði um hér á lokamínútum kynningar sinnar. Í fyrsta lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra út í breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Telur hæstv. ráðherra að Útlendingastofnun geti mögulega farið í það að stytta málsmeðferðartímann í það sem áður var til þess að fólk sem bíður hér eftir svari, sem er hér í leit að vernd og bíður eftir svari og niðurstöðu mála sinna, geti fengið bráðabirgðaratvinnuleyfi? Það er skortur á vinnandi fólki á Íslandi. Áður fyrr var það létt verk og löðurmannlegt að afgreiða það en núna (Forseti hringir.) tekur það sex til átta mánuði að fá svar um bráðabirgðaratvinnuleyfi sem gerir það að verkum (Forseti hringir.) að atvinnutilboðið er löngu runnið út í sandinn.