152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[19:19]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir framsöguna á þessu máli, sem ég held að engum dyljist að ég er ákaflega ósammála. Í ljósi þess sem fram kom í máli hæstv. dómsmálaráðherra þá langar mig til að beina einkum tveimur spurningum til hans, þó að þær séu sannarlega mun fleiri sem brenna á mér. Í fyrsta lagi hjó ég eftir því að hæstv. dómsmálaráðherra er tíðrætt um skilvirkni og að þessu frumvarpi sé ætlað að auka skilvirkni. Nú er hins vegar verið að svo gott sem taka úr sambandi eitt mikilvægasta ákvæðið sem kom inn með lögunum árið 2016 sem snerist nákvæmlega um það að auka skilvirkni og það eru ákveðnir tímafrestir varðandi vinnslu mála. Þetta eru frestir sem gera það að verkum að ef mál hefur verið til vinnslu í 12 mánuði eða meira og ekki tekið til efnismeðferðar þá er það tekið til efnismeðferðar eftir þann tíma. Nú er verið að breyta þessum lögum þannig að nánast er verið að taka þetta úr sambandi. Mig langar til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvernig í ósköpunum þetta á að auka skilvirkni.