152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[19:41]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það kann að vera að ég hafi eitthvað misskilið orð hæstv. dómsmálaráðherra þegar hann sagði að þjónustan flyttist yfir til hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra eftir að viðkomandi einstaklingur hefur fengið vernd á Íslandi. Það er auðvitað ekki svo samkvæmt forsetaúrskurði eða samkvæmt því frumvarpi sem hæstv. dómsmálaráðherra kynnir á eftir. Þar er verið að tala um umsækjendur um vernd, ekki þá sem hafa fengið hér stöðu flóttafólks. Þetta er tvíþætt. Þeir sem hafa fengið hér vernd teljast vera flóttafólk og eru skilgreindir sem flóttafólk í skilningi bæði alþjóðlegra laga og innlendra laga. Aðrir eru skilgreindir sem umsækjendur um vernd, umsækjendur um alþjóðlega vernd, og um það er fjallað bæði í því frumvarpi sem verður kynnt hér á eftir sem og í forsetaúrskurði nr. 6/2022.