152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[19:45]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég skil ekki alveg hvers vegna hæstv. ráðherra sér einhverja sérstaka þörf til að verja hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra gagnvart því að mæta hér í sal og ræða um sitt eigið málefnasvið og taka þátt í umræðunni. Ég hefði haldið að það væri bara gott að hafa öflugan liðsmann úr ríkisstjórninni sér við hlið til að verja þetta ódæðisverk sem hæstv. ráðherra er að fremja hér með framlagningu og umræðu um þetta mál. Það væri þá betra að vera tveir á móti nokkurn veginn bara stjórnarandstöðunni, að nokkrum hv. þingmönnum undanskildum. Það er mikilvægt að heyra rödd þess ráðherra sem ber ábyrgð á þeirri þjónustu sem til stendur að svipta hælisleitendur. Það er bara mikilvægt að heyra rödd þess ráðherra. Ég skil ekki hvers vegna sá hæstv. ráðherra getur ekki komið hingað og svarað fyrir það hvernig honum finnist þetta verjandi.