152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:06]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að fordæma það að maður hafi tilfinningar þegar um er að ræða málefni fólks á flótta af því að það opinberar stöðuna svolítið. Lög eru mannanna verk og það er í lagi að hafa tilfinningar þegar um er að ræða mannréttindi. Annað væri það nú. Það væri kannski betra ef hæstv. dómsmálaráðherra hefði meiri tilfinningar þegar hann semur frumvarp eins og það sem við erum að fjalla um hér í dag af því að við erum að tala um fólk, bara venjulegt fólk. Og að reyna að halda því fram að það sé öruggt fyrir fólk að búa á götunni í Grikklandi þá er það ekki svo. Þegar fólk hefur fengið status í Grikklandi eða á Ítalíu þá er það ekki eins og þegar hæstv. dómsmálaráðherra ákveður að fara í sólarlandaferð til Krítar. Það er bara ekki það sama. Það er ekkert skjól, hvorki fyrir veðri, vindum né öðru. Það er það ekki. Og ég skora á hæstv. ráðherra að kynna sér aðstæður (Forseti hringir.) fólks á flótta, t.d. á götunni í Grikklandi.