152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga sem og þeim þingmönnum, sem flutt hafa ræðu eða tekið þátt í andsvörum eða öðru, fyrir þeirra innlegg í umræðuna. Ég kveð mér hér hljóðs m.a. til að gera grein fyrir fyrirvara sem ég og hv. þm. Jódís Skúladóttir gerðum við þetta frumvarp þegar það var afgreitt út úr þingflokki Vinstri grænna, en hann fjallar um að skoða þurfi heildstætt áhrif þeirra breytinga sem eru lagðar til í frumvarpinu og að sjónarmið um skilvirkni og hagkvæmni kerfisins megi aldrei verða á kostnað almennrar mannúðar og réttlætissjónarmiða, ekki síst með tilliti til stöðu fólks sem tilheyrir viðkvæmum hópum.

Ég tel að í þessu frumvarpi sem við ræðum hér og í rauninni í tengdum frumvörpum, bæði frumvörpum sem hæstv. dómsmálaráðherra kynnti aðeins hérna áðan um atvinnuréttindi útlendinga og verður mælt fyrir seinna í kvöld og frumvörpum sem hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur mælt fyrir, að ég held, séu ákvæði sem eru til opnunar á réttindum útlendinga og fólks á flótta meðan önnur eru til þrengingar og verða m.a. til þess að málsmeðferðartími ætti að verða hraðari.

Það frumvarp sem við erum að ræða hér og nú og liggur fyrir þinginu er talsvert mikið breytt, bæði í uppsetningu en einnig í efnisgreinum, frá þeim frumvörpum sem einnig hafa fjallað um breytingar á lögum um útlendinga og þingið hefur haft til meðferðar á síðustu þingum en hafa ekki verið afgreidd, m.a. vegna þeirra ábendinga sem komið hafa fram í meðferð allsherjar- og menntamálanefndar. Annaðhvort hefur ekki verið vilji til eða bara hreinlega ekki gefist tími til að botna og klára og hreinlega skoða hvort væri hægt að gera breytingar í takti við það sem þar kemur fram. Ég tel því að hér eigi nefndin mikla og mikilvæga vinnu eftir fyrir höndum.

Mér finnst skipta gríðarlega miklu máli það sem er skrifað inn í frumvarpið varðandi heimildir til þess að víkja frá þeirri meginreglu að þó svo að umsækjandi hafi fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki, og málið verði því samkvæmt tillögunni eins og hún liggur fyrir ekki tekið til efnismeðferðar hér á landi, sé hægt að víkja frá því og að það megi ekki senda fólk þangað þar sem líf þess og frelsi kann að vera í hættu og líta þurfi til þess að einstaklingur njóti í reynd þeirra mannréttinda sem lög viðkomandi ríkis mæla fyrir um. Þessi atriði þarf að skoða gríðarlega vel.

Mér líst ágætlega á þetta eins og það er sett fram hérna en ég tel að þetta þurfi að fá góða skoðun. Það er mikilvægt að hafa kerfi, bæði hér og svo annars staðar í heiminum, sem gerir fólki, sem er að flýja gjörsamlega óboðlegar og oft manngerðar óboðlegar aðstæður vegna stríðsátaka í heiminum, kleift að komast í öruggt skjól í öðrum löndum. Þar berum við mikla ábyrgð sem ríkt land og sem er betur fer fjarri öllum stríðsátökum í því að taka á móti fólki. En við berum að sjálfsögðu ekki ein ábyrgð í því. Mér finnst að það eigi að vera sómi okkar að vera með kerfi sem er skiljanlegt fyrir þá sem þurfa að reiða sig á það og sem virkar hratt og örugglega en sem hefur líka næmni fyrir þeim mannlega margbreytileika og þeim aðstæðum sem fólk er að koma úr. Ég held að það þurfi að hafa kerfi sem bíður fólk velkomið. Ástandið í heiminum er einfaldlega þannig að þannig verður það að vera. Auðvitað þurfa stofnanir, hvaða nafni sem þær heita, að vinna vinnunna vel og fagmannlega, vera vel mannaðar og horfa þarf til þeirra sjónarmiða og ekki horfa fram hjá þeim sem einmitt eru talin upp í löggjöfinni okkar og í lögskýringargögnum um að þurfi að horfa til. Þannig eiga bara allar okkar stofnanir að virka.

Ég hlakka til að fylgjast með framgangi þessa máls í gegnum nefndarvinnuna. Ég treysti því að allsherjar- og menntamálanefnd sinni því starfi vel. Svo mun ég að sjálfsögðu bara að meta það hvaða athugasemdir koma fram og hvernig hægt er að bregðast við þeim. Ég fæ ekki betur séð en að verið sé að bregðast við ýmsu sem hefur verið gagnrýnt hingað til og búið að koma því í allt annað form. Það er gott því að hin þinglega meðferð á að hafa áhrif á hvernig frumvörp koma aftur hingað inn í þingsal ef málum lýkur ekki með því að þau séu gerð að lögum.