152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:38]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekkert verið að skrifa þetta inn. Þetta er í núgildandi lögum. Það er ekki verið að bæta þessum ákvæðum inn í lögin. Þetta eru ákvæði sem eru nú þegar í núgildandi lögum. Það er ekki verið að breyta þessum ákvæðum sem hv. þingmaður var að vísa í og telur geta komið bágstöddum flóttamönnum til bjargar. Þessi ákvæði eru nú þegar til staðar í lögunum. Rauði krossinn hafði þetta að segja um beitingu þessara ákvæða á bls. 12 í umsögn sinni við þetta frumvarp í samráðsgáttinni:

„Rétt er að benda á að frá gildistöku núgildandi útlendingalaga hafa stjórnvöld aldrei“ — aldrei — „fallist á að endursending einstaklings eða fjölskyldu með vernd í öðru ríki leiði til brots gegn 42. gr. útlendingalaga, þrátt fyrir að talsmenn Rauða krossins hafi gert kröfu um efnismeðferð á þeim grundvelli í öllum málum þegar umsækjandi hefur haft vernd í öðru ríki. […] Þá heyrir það til algjörra undantekninga að umsóknir skv. a-lið 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga séu teknar til efnismeðferðar hér á landi með vísan til sérstakra ástæðna. Túlkun stjórnvalda á því hvað teljist til sérstakra ástæðna hefur þrengst svo um munar og undanfarið ár hafa stjórnvöld fallist á sérstakar ástæður í einungis örfáum málum.“

Sem sagt: Þetta verður algild meginregla.