152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[21:04]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil taka undir það sem aðrir hv. þingmenn hafa sagt hér; ég myndi gjarnan vilja sjá hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra í þessari umræðu, bæði vegna þess að í þessu frumvarpi eru mörg atriði sem eru á hans forræði, en ekki síður vegna þess að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur opinberlega talað um að hann hlakki til að fá þetta mál til umræðu í þinginu. Ég skil ekki hvers vegna og mig langar rosalega mikið til að eiga þetta samtal við hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Þá langar mig bara rétt aðeins í lokin, fyrst hæstv. dómsmálaráðherra hnýtti því í okkur hérna rétt áðan að við værum að reyna að blekkja einhvern, til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Hvers vegna í ósköpunum ættum við að vera að gera það? Hvers vegna í ósköpunum ættum við að vera með þennan málflutning hérna ef ekki væri vegna þess að við höfum raunverulegar áhyggjur af flóttafólki sem vísað er héðan úr landi? Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við höfnum þessu frumvarpi. Það er ekki að ástæðulausu. Það er ekki út í loftið.