152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[21:07]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að fá það staðfest að hæstv. ráðherra ætlar ekki að verða við beiðni stjórnarandstöðunnar um að koma hér í hús. Miðað við orð hv. þingflokksformanns hæstv. ráðherra, sem sér enga ástæðu til þess að ráðherrann mæti hingað, þá hlýt ég að ganga út frá því að það sé afstaða ráðherrans. Hér eru samt ákvæði sem heyra undir málefnasvið ráðherrans, eins og við höfum margoft komið inn á, bæði þjónusta við flóttafólk en líka lög um atvinnuréttindi útlendinga sem er verið að breyta með þessu frumvarpi og tilheyra málefnasviði hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, rétt eins og raunar þjónusta við hælisleitendur, þjónusta við fólk sem er að sækja um alþjóðlega vernd. Það er auðvitað bara sorglegt að hann sé ekki til í að koma hingað og standa fyrir máli sínu, sami maður og hlakkaði til að fá þetta ógeðsfrumvarp hér inn í þennan sal. Ég væri til í að heyra hvers vegna hann hlakkar til. Yfir hverju á að hlakka í þessu máli?