152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[21:30]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég velti aðeins fyrir mér þessu ákvæði 33. gr. og yfirskrift þess, sem er einfaldlega „réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd“, ef þar undir eru settir einstaklingar sem eru ekki umsækjendur um alþjóðlega vernd heldur bara útlendingar. Með frumvarpi hæstv. ráðherra er verið að setja útlending, viðkomandi sem ekki er lengur umsækjandi samkvæmt þeirra skilningi, í þá stöðu að njóta ekki lengur réttinda. En engu að síður er í sama lagaákvæði verið að undanskilja ákveðna aðila sem verða þá aftur — ja, hvað? Umsækjendur um alþjóðlega vernd eða útlendingar. Ef um er að ræða útlending sem er hér sem þarf einhverja aðstoð þá getur viðkomandi útlendingur farið til sveitarfélaga og sótt um svokallaða neyðaraðstoð fyrir útlendinga, erlenda borgara, sem eru hér í neyð, sem eru ekki umsækjendur, heldur eru hér bara algjörlega varnarlausir. Það eru einstaklingar sem hafa komið hingað sem hafa lent í því að öllu hefur verið stolið af þeim og þeir hafa geta fengið aðstoð sveitarfélaga og það er á ábyrgð sveitarfélaga að veita slíka aðstoð. Með þessu frumvarpi er í raun verið að henda fólki út úr skilgreiningunni „umsækjandi um alþjóðlega vernd“ og viðkomandi er þá væntanlega bara almennur útlendingur sem er þá kominn upp á sveitarfélögin. Er þá ekki rétt að þessu fylgi eitthvert fjármagn til sveitarfélaga til að standa straum af þeim sem verður hent út úr skilgreiningunni um umsækjendur um alþjóðlega vernd?