152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[21:42]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður gerir hér m.a. að umtalsefni sínu Dyflinnarreglugerðina, þetta Dyflinnarsamstarf. Af því tilefni langar mig til að vekja athygli á því að það hefur verið málflutningur stjórnvalda að við þurfum að vísa sem flestum frá á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og af öðrum ástæðum, af því að við getum ekki hjálpað öllum. Nú fyrir stuttu var ráðist inn í Úkraínu mjög óvænt og lá fyrir strax frá upphafi að milljónir manna myndu flýja þaðan, sem það og gerðu, og að einhver hluti þeirra myndi leita hingað til lands. Það sem var svo merkilegt sem gerðist þarna, sem var sannarlega að mörgu leyti mjög fallegt þótt það hafi vakið ónotatilfinningu af því að það var ákveðinn munur á beitingu laga og aðgerðum stjórnvalda gagnvart mismunandi flóttamannahópum — einstaklingar sem leita hingað til lands frá Úkraínu hafa í langflestum tilvikum, mjög mörgum tilvikum, stigið niður fæti í öðrum Evrópuríkjum áður en þeir komu hingað til lands. Dyflinnarreglugerðin er reyndar nokkuð flókin, ég ætla ekki að eyða þessum 30 sekúndum sem ég á eftir til að fara yfir ástæðurnar sem geta verið fyrir því að eitthvað annað ríki beri ábyrgð á umsókn, en ljóst er að þær eiga gjarnan við í málefnum Úkraínumanna líka. Íslensk stjórnvöld tóku hins vegar ákvörðun um að beita ekki Dyflinnarreglugerðinni í málum þessa fólks. Ég er ekki með nýjustu tölur á takteinum en mér skilst að það séu um 1.500 manns sem hafa leitað hingað. Ísland er ekki sokkið enn og virðist þetta nú bara allt ætla að fara nokkuð vel.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann: Telur hann að Ísland muni sökkva í svartan sæ ef við myndum einfaldlega hætta að beita Dyflinnarreglugerðinni?