152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[21:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Þessi ríkisstjórn er fjandsamleg flóttamönnum. Það er mér dagljóst eftir nokkurra ára upplifun af framkomu þessarar ríkisstjórnar, bæði á síðasta kjörtímabili og á þessu kjörtímabili, gagnvart fólki á flótta. Það er bara mjög skýrt að þessi ríkisstjórn er fjandsamleg fólki á flótta.

Tökum eitt nýlegt dæmi. Fyrir ári síðan var meira en 20 umsækjendum um alþjóðlega vernd vísað út á guð og gaddinn í febrúarmánuði. Höfum það í huga, í febrúar. Það var ekki í samræmi við lög. Það braut á réttindum þessara flóttamanna sem voru þá í fleiri vikur sviptir húsnæði, framfærslu, allri þjónustu vegna þess að þau neituðu að aðstoða við eigin brottvísun, aðallega til Grikklands. Þetta gerði þessi ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili. Á þessu kjörtímabili ætlar hún að reyna enn eina ferðina að festa þessa ólöglegu framkvæmd í lög. Hún ætlar að gera það að verkum að núna geti hún löglega svipt fólk öllum réttindum fyrir að neita að aðstoða við sinn eigin brottflutning út á guð og gaddinn. Þetta er það sem til stendur með þessu frumvarpi. Ég tók ekki eftir því að hæstv. dómsmálaráðherra þá hafi verið látinn sæta nokkurri ábyrgð á því að hafa vitað og tekið þátt í því vísvitandi að svipta yfir 20 hælisleitendur húsnæði, framfærslu og allri þjónustu í algeru trássi við lög og réttindi þessara flóttamanna. Hún baðst ekki einu sinni afsökunar á þessari vítaverðu framkomu. Þetta er eitt dæmi.

Það hefur verið minnst á mál óléttrar konu sem var neydd upp í flugvél þrátt fyrir að vera komin allt of langt á leið og þrátt fyrir fyrirmæli heilbrigðisstarfsfólks um annað. Við munum öll eftir öllum þessum málum, öllum þessum börnum, sem hafa ekkert þekkt nema Ísland, sem á að henda úr landi. Þau hafa fengið að vera á Íslandi vegna mótmæla almennings, mótmælum gegn því að það eigi að senda þau út í óvissuna, í hræðilegar aðstæður til Grikklands eða annarra enn verri landa. Og nú á að gulltryggja að þessi mótmæli geti ekki átt sér stað vegna þess að það á að senda þau úr landi umsvifalaust, áður en þau geta eignast vini sem tala fyrir þeirra hönd hér á Íslandi, áður en þau hitta nokkurn einasta Íslending, vegna þess að nú á að gera endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar að meginreglu. Það á sem sagt að stoppa þessi óþægilegu mótmæli almennings í landinu sem kallar eftir því að þessi ríkisstjórn sýni einhverja mannúð gagnvart fólki á flótta. Það á að tryggja að þessi mótmæli geti ekki lengur átt sér stað með því að almenningur viti ekki af fólkinu sem á að senda rakleiðis til Grikklands. Út á það gengur þessi breyting líka. Auðvitað er verið að tryggja að hægt sé að þvinga fólk í læknismeðferð, koma í veg fyrir að flóttamenn geti neitað að undirgangast PCR-próf, sem er það sem stóð í vegi fyrir þeim síðast og varð til þess að fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra henti 20 flóttamönnum á götuna vegna þess að þau neituðu að undirgangast PCR-próf. Það var engin lagaheimild fyrir því að neyða þau í þessa læknismeðferð þannig að í staðinn átti að neyða þau í læknismeðferðina með því að henda þeim á götuna. Reyndar er heldur ekki lagaheimild til þess en það virðist ekki skipta neinu máli í grænni og vænni mannréttindaríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Það hafði alla vega engar teljandi afleiðingar fyrir þann ráðherra sem átti í hlut.

Núna á að koma þessu tvennu til leiðar. Reyndar er búið að reyna þetta þrisvar sinnum áður. Þessu frumvarpi hefur ítrekað, þrisvar sinnum, verið hafnað af þinginu vegna þess að það er fjandsamlegt fólki á flótta. Nú á að reyna í fjórða sinn. Nú á einhvern veginn að reyna að telja okkur trú um að þetta sé mannúðlegt frumvarp. Skilja mátti af orðum hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur að það væri nú ýmislegt verið að gera til að opna fyrir fólki á flótta. Við eigum eftir að heyra hvað það er. Það er nefnilega verið að tryggja að fólk sem hefur fengið vernd í Grikklandi, sem við vitum að hefur enga leið til að draga fram lífið með mannsæmandi hætti, fái ekki einu sinni að segja sína sögu hér, það verði sent rakleiðis til baka, algjörlega burt séð frá aðstæðum þess, algjörlega burt séð frá því hvort það býr við fötlun, hvort það hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi, hvort það hafi verið í mansali. Ekkert af þessu skiptir máli fái þetta frumvarp að verða að lögum.

Þetta er svolítið kaldhæðnislegt af því að Útlendingastofnun hefur haldið því fram gegn betri vitund í fleiri ár að stofnunin verði að senda allt fólk til baka á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Lögin gefi þeim ekkert val, sem er rangt miðað við núgildandi löggjöf. En nú fá draumar þeirra loks að rætast og þau geta sent alla rakleiðis úr landi og þau geta í alvörunni og sannleika sagt að lögin skyldi þau til þess, vegna þess að verði þessi lög samþykkt þá er það svoleiðis og þá verður það svoleiðis.

Nú vill svo til að hæstv. dómsmálaráðherra hélt því hér fram fullum fetum að allir litu svo á að Grikkland væri öruggt land til að senda flóttamenn til. Það er ekki svo. Ég vil bara hvetja hæstv. ráðherra, sem einhverra hluta vegna hefur hafnað Rauða krossinum sem málsvara fólks á flótta, til þess að lesa a.m.k. umsagnir Rauða krossins um þetta viðbjóðslega frumvarp hans. Þar kemur einmitt skýrt fram að það eru þó nokkur ríki í Evrópu sem eru hætt að senda flóttafólk aftur til Grikklands þótt það hafi hlotið þar vernd vegna óviðunandi aðstæðna þar í landi, vegna þess að það eru réttmætar ástæður til að hafa áhyggjur af því að endursending þangað brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem snýr að vernd gegn pyndingum og annarri vanvirðandi meðferð eða refsingu, þeim grundvallarréttindum að við eigum að lifa með mannlegri reisn og verða ekki fyrir vanvirðandi meðferð eða refsingu. Það er því bara rangt, sem hæstv. ráðherra heldur hér fram, að öll ríki Evrópu líti á Grikkland sem einhvers konar öruggt upprunaríki. Það er einfaldlega ekki svo.

Hér hafa komið fram, og bara mjög skýrt, aðrir skelfilegir hlutir sem þetta frumvarp mun hafa í för með sér fyrir réttindi fólks á flótta. Nefnt hefur verið að svipta eigi fólk á flótta lágmarksréttindum sínum samkvæmt stjórnsýslulögum. Það á í raun að gera það að annars flokks fólki sem nýtur ekki þeirrar grunnverndar sem stjórnsýslulögin fela í sér. Það á að meina því um endurupptöku. Það á að stytta getu þess til að kæra, til þess að tala fyrir sínu máli, til þess að koma með frekari gögn, til þess að svara niðurstöðu Útlendingastofnunar sem hefur ítrekað gerst uppvís að því að framkvæma ekki nógu fullnægjandi rannsókn á högum umsækjenda um alþjóðlega vernd, ítrekað. Þetta bendir Rauði krossinn líka á í sinni umsögn um þetta þingmál, að Útlendingastofnun sinni ekki sinni rannsóknarskyldu gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd, sér í lagi ekki þeirri skyldu sinni að kanna hvort aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd séu með þeim hætti að þau teljist til sérstaklega viðkvæmra hópa, sem er eitthvað sem ætti að verða til þess að þau fengju vernd hér á landi. En þetta hunsa þau ítrekað, rétt eins og þau hunsa ítrekað kröfu um að meta hvort það sé hætta við endursendingu til landsins.

Það sem er vísað í núna, m.a. af hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, að það séu nú undanþágur sem passi upp á að fólk verði ekki sent í aðstæður ef það tilheyrir sérstaklega viðkvæmum hópi, eru ákvæði sem hafa verið í lögunum lengi. Það eru ákvæði sem við eigum að hafa í lögunum samkvæmt þjóðarrétti. Það eru ákvæði sem er aldrei beitt. Aldrei. Þetta kemur líka fram í umsögn Rauða krossins sem ég hvet hv. þingmann og hæstv. ráðherra til að lesa, í ljósi þeirra röngu fullyrðinga sem þau hafa komið hér fram með um þetta mál.

Ég vil að lokum gera að umtalsefni mínu annað ákvæði í þessu frumvarpi sem ég tel að hafi ekki enn fengið nógu mikla umfjöllun. Það snýr að því að núna er yfirvöldum gefin heimild til að afla heilbrigðisupplýsinga, afla gagna úr sjúkraskrá, afla trúnaðarupplýsinga, ekki bara um umsækjendur um alþjóðlega vernd — fyrir þá sem er kannski bara slétt sama um flóttafólk — nei, um alla útlendinga á Íslandi. Það er verið að veita yfirvöldum heimild til að afla viðkvæmra persónuupplýsinga, sjúkraskrárupplýsinga, um alla útlendinga á Íslandi. Það er það sem er verið að gera með þessu frumvarpi. Það er rosalegt, virðulegi forseti. Það er bara virkilega forkastanlegt. En þetta á að gera í ríkisstjórn sem leidd er af Katrínu Jakobsdóttur sem hefur nýverið tekið til sín mannréttindamál í þeirri ríkisstjórn. Hún samþykkti þetta mál í gegnum ríkisstjórn, vitandi að þetta traðkar á mannréttindum fólks á flótta en ekki bara fólks á flótta heldur allra útlendinga á Íslandi.

Núverandi útlendingalöggjöf er nógu slæm. Hún felur m.a. í sér að útlendingum á Íslandi er skylt að bera ávallt á sér skilríki. Þau þurfa alltaf að vera með skilríki á sér. Ef lögreglan stoppar útlending og hann er ekki með skilríki á sér er lögreglan komin með rökstuddan grun til að framkvæma húsleit hjá viðkomandi. Þetta er í alvörunni í núgildandi lögum okkar. Það er nóg að viðkomandi sé ekki með skilríki og þá getur lögregla farið fyrir dóm og beðið um húsleitarheimild, vegna þess að hún er komin með rökstuddum grun, til að athuga hvort viðkomandi sé löglega í landinu. Þessa heimild hefur lögreglan. Ef hún telur hættu á sakarspjöllum má leita án þess að fá heimild dómara. Þannig eru lögin núna. Nú á sem sagt að bæta ekki bara gráu heldur kolsvörtu ofan á svart með því að gefa yfirvöldum heimild til að afla gagna úr sjúkraskrám allra útlendinga á Íslandi til að tryggja að vera þeirra á Íslandi sé lögleg eða tryggja að það megi alveg örugglega vísa þeim úr landi eða ná í eins og eitt bólusetningarvottorð til að auðvelda það að senda þau úr landi. Þetta er verið að festa í lög.

Hvernig eiga útlendingar að treysta heilbrigðisstarfsfólki á Íslandi ef þau vita að heilbrigðisupplýsingar þeirra njóta ekki sömu verndar og heilbrigðisupplýsingar Íslendinga? Hvers konar samfélag er það sem við erum að byggja með þessari lagasetningu hér? Hvers konar ógeðslegri stéttaskiptingu erum við að koma á fót hér? Fyrsta flokks og annars flokks einstaklingar hér njóta fyrsta flokks og annars flokks réttinda og sumir njóta engra og þeim er vísað á dyr við komuna til landsins. Þessi ríkisstjórn er fjandsamleg fólki á flótta en ekki bara fólki á flótta, þessi ríkisstjórn er fjandsamleg fólki af erlendum uppruna.